Skaðabótamálum þriggja kvenna sem telja sig hafa fengið ranga niðurstöðu úr leghálsskimun hjá Krabbameinsfélaginu hefur verið vísað til tryggingafélags Krabbameinsfélagsins. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV.

Sævar Þór Jónsson, lögmaður þeirra, skoðar nú mál þriggja annarra kvenna sem telja sig hafa fengið ranga niðurstöðu úr brjóstaskimun.

Grunar að misbrestur hafi átt sér stað í greiningu

RÚV hefur eftir Sævari að ein þeirra hafi farið í brjóstaskimun hjá Leitarstöðinni á seinni hluta síðasta árs og verið sagt að ekkert athugavert hafi fundist.

Nokkru síðar hafi hún farið að finna fyrir einkennum og í ljós komið að hún væri með illkynja krabbamein í brjósti.

Að sögn Sævars var það talið vera ansi stórt miðað við að konan hafi farið í skoðun árið áður. Hann sagði í hádegisfréttum RÚV að gögn gæfu til kynna að einhver misbrestur hafi orðið við greiningu.

Þegar hefur Sævar vísað málum átta kvenna til Embættis landlæknis sem varða Leitarstöð Krabbameinsfélagsins.

Félagið réðst í endurskoðun á 4.950 leghálssýnum frá árunum 2017 til 19 eftir að í ljós kom að kona sem hafi fengið rangar niðurstöður hjá Leitarstöðinni hafi síðar greinst með ólæknandi krabbamein.

Í kjölfar málsins leituðu fleiri konur til Sævars sem töldu misbresti hafa átt sér stað í skimun hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins.