Sjúkra­tryggingar Ís­lands hafa samið við Klíníkina um kaup á að­gerðum vegna endó­metríósu. Heil­brigðis­ráð­herra hefur stað­fest samninginn og þar með hefur hann tekið gildi. Þeir sem eru í brýnustu þörfinni njóta for­gangs að að­gerðum.

Greint er frá þessu á heima­síðu Stjórnar­ráðsins en þar segir Willum Þór Þórs­son, heil­brigðis­ráð­herra að það hafi verið al­gjört for­gangs­mál að stytta bið­lista.

„Í þeirri vinnu hefur á­hersla verið lögð á víð­tæka sam­vinnu og að nýta beri krafta allra sem veita heil­brigðis­þjónustu í landinu til að tryggja jafnt að­gengi og jafn­ræði,“ segir hann og bætir við að samningurinn sé mikil­vægur á­fangi í slíkri sam­vinnu.

„Sam­tökin um endó­metríósu á Ís­landi hafa unnið mikil­vægt og ó­eigin­gjarnt starf sem hefur ekki að­eins leitt til um­bóta í heil­brigðis­þjónustu við þá sem glíma við sjúk­dóminn heldur líka vitundar­vakningar í sam­fé­laginu,“ sagði Willum.

Þver­fag­legt endó­metríósu­teymi var stofnað árið 2017 en nú er Klíníkin einnig að byggja upp sér­hæfða þjónustu fyrir sjúk­dóminn. Í til­kynningunni segir að með samningnum fjölgi úr­ræðum vegna endó­metríósu og að þjónustan eflist enn frekar.

Heil­brigðis­ráð­herra skipaði starfs­hóp fyrr á þessu ári með full­trúum frá endó­metríósu­teymi Land­spítala, Sam­tökum um endó­metríósu, Þróunar­mið­stöð ís­lenskrar heilsu­gæslu og sjálf­stætt starfandi sér­fræðingum.

Hópurinn skilaði til­lögu sinni til úr­bóta í apríl sem nú er verið að vinna úr og hrinda í fram­kvæmd.

„Til­lögurnar snúa aðal­lega að aukinni fræðslu til heil­brigðis­starfs­fólks og ein­stak­linga, skipu­lagi þjónustunnar og jöfnu að­gengi að sér­fræði­þjónustu óháð efna­hag. Auk þess lagði hópurinn til styrkingu endó­metríósu­teymis Land­spítala sem ráð­herra fylgdi eftir með 30 m.kr. varan­legri auka­fjár­veitingu til styrkingar teymisins,“ segir í til­kynningunni.