Sjúkratryggingar Íslands hafa samið við Klíníkina um kaup á aðgerðum vegna endómetríósu. Heilbrigðisráðherra hefur staðfest samninginn og þar með hefur hann tekið gildi. Þeir sem eru í brýnustu þörfinni njóta forgangs að aðgerðum.
Greint er frá þessu á heimasíðu Stjórnarráðsins en þar segir Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra að það hafi verið algjört forgangsmál að stytta biðlista.
„Í þeirri vinnu hefur áhersla verið lögð á víðtæka samvinnu og að nýta beri krafta allra sem veita heilbrigðisþjónustu í landinu til að tryggja jafnt aðgengi og jafnræði,“ segir hann og bætir við að samningurinn sé mikilvægur áfangi í slíkri samvinnu.
„Samtökin um endómetríósu á Íslandi hafa unnið mikilvægt og óeigingjarnt starf sem hefur ekki aðeins leitt til umbóta í heilbrigðisþjónustu við þá sem glíma við sjúkdóminn heldur líka vitundarvakningar í samfélaginu,“ sagði Willum.
Þverfaglegt endómetríósuteymi var stofnað árið 2017 en nú er Klíníkin einnig að byggja upp sérhæfða þjónustu fyrir sjúkdóminn. Í tilkynningunni segir að með samningnum fjölgi úrræðum vegna endómetríósu og að þjónustan eflist enn frekar.
Heilbrigðisráðherra skipaði starfshóp fyrr á þessu ári með fulltrúum frá endómetríósuteymi Landspítala, Samtökum um endómetríósu, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu og sjálfstætt starfandi sérfræðingum.
Hópurinn skilaði tillögu sinni til úrbóta í apríl sem nú er verið að vinna úr og hrinda í framkvæmd.
„Tillögurnar snúa aðallega að aukinni fræðslu til heilbrigðisstarfsfólks og einstaklinga, skipulagi þjónustunnar og jöfnu aðgengi að sérfræðiþjónustu óháð efnahag. Auk þess lagði hópurinn til styrkingu endómetríósuteymis Landspítala sem ráðherra fylgdi eftir með 30 m.kr. varanlegri aukafjárveitingu til styrkingar teymisins,“ segir í tilkynningunni.