Slökkvistarf gekk vel, eftir að eldur kom upp í íbúð í Mávahlíð í nótt, að sögn Gunnlaugs Jónssonar, aðstoðarvarðstjóra hjá slökkviliðinu.

Þrír voru fluttir á slysadeild eftir eldsvoðann og var tveimur þeirra var bjargað út um glugga íbúðarinnar. Nær allt tiltækt slökkvilið sinnti eldsvoðanum, sem var í fjölbýlishúsi.

Tilkynnt var um eldinn um klukkan hálf tvö í nótt en slökkviliðsmenn náðu að slökkva eldinn á innan við korteri.

„Sjúkraflutningsmaður var búinn að sprauta úr einu slökkvitæki þegar við komum á staðinn á dælubílnum þannig það var búið að slá að einhverju leiti á eldinn,“ segir Gunnlaugur í samtali við Fréttablaðið og bætir við að mikill reykur hafi enn verið í íbúðinni.

„Reykkafarar fóru inn og fundu mjög fljótlega tvo einstaklinga sem voru fluttir á slysadeild til aðhlynningar,“ segir Gunnlaugur en engar frekari upplýsingar liggja fyrir um líðan þeirra.