Sigur­björn Þor­kels­son var einn af þeim fyrstu sem kom að bana­slysinu sem varð á Vestur­lands­vegi á Kjalar­nesi í gær. Tveir létust og einn endaði á gjör­gæslu eftir að mótor­hjól og hús­bíll lentu saman á hálum vegar­kafla á veginum og annað bifhjól endaði utan vegar.

Sigur­björn segir að­komuna að vonum hafa verið á­takan­lega og lýsir biðinni eftir við­bragðs­aðilum sem erfiðum tíma. „Ég var á­samt öðrum á svæðinu áður en björgunar­sveit, lög­reglu­menn, sjúkra­bílar, þyrla og aðrir aðilar komu á staðinn.“ Hann telur ekki við­eig­andi að lýsa að­stæðum sem blöstu við honum. „Maður fann sig svo smáan og van­máttugan að geta svo lítið gert.“

Sjúkra­bíllinn gat ekki hemlað

Þegar sjúkra­bíla bar að lokum að garði fór það þó svo að einn þeirra endaði utan vegar. „Einn af sjúkra­bílunum sem á svæðið kom gat ekki stöðvað á þessum um­rædda sleipa vegar­kafla og hentist hann út fyrir veg og út í móa.“

Bíl­stjóri sjúkra­bílsins hafi ber­sýni­lega verið fær öku­maður að mati Sigur­björns og brást hann hár­rétt við. „Þetta var greini­lega klár bíl­stjóri sem kann að bregðast við og í stað þess að láta bílinn velta eða skella á ein­hvern þá stýrði hann honum út af veginum út í móa.“

Að­eins einn söku­dólgur

Öllum á vett­vangi var deginum ljósara að vegar­kaflinn þar sem slysið átti sér stað væri stór­hættu­legur. „Ég var sjálfur nærri floginn á hausinn þarna á striga­skónum,“ bendir Sigur­björn á.

Þá voru allir á vett­vangi sam­róma um hver olli slysinu. „Öku­maður hús­bílsins var ekki á meira en 70 kíló­metra hraða, gerði ekkert vit­laust og átti ekki nokkra aðild að þessu fremur en þeir sem voru á hjólunum sem fóru ekkert gassa­lega um heldur komu út á þennan hála kafla og flugu þarna fyrir.“ Greini­legt væri að vegurinn væri or­saka­valdur slyssins.

Allir fóru um með gát

„Þó að ég hafi ekki séð slysið sjálfur þá vorum við þarna sem fyrst komum að þessu að spyrja okkur spurninga um hvað hefði mögu­lega geta gerst og það voru allir sam­mála um það að þetta var vegurinn, það var enginn sem fór ó­gæti­lega.“

Sigur­björn segir hug sinn vera hjá þeim sem látnu og einnig hinum slasaða og fjöl­skyldu þeirra og fé­lögum í vél­hjóla­klúbbnum.