Sjúkrabíll komst á föstudaginn ekki að heimili fárveiks eldri manns, sem býr við rætur Esjunnar, innan borgarmarka Reykjavíkur. Óbrúuð á, Þverá, er skammt frá heimili hans. Morgunblaðið greinir frá þessu.

Íbúinn Sveinn Sigurjónsson leið út af á föstudag en tókst að skríða inn í stofu og hringja í dóttur sína. Hún hringdi í Neyðarlínuna. Þegar sjúkrabíll var að nálgast kom hann að ánni en treysti sér ekki yfir vaðið. Haft er eftir dóttur hans að hún hefði gert ráð fyrir að upplýsingar um aðstæður lægju fyrir hjá Neyðarlínunni.

Svo fór að Sveinn, sem er áttræður, kom sjálfur yfir ána á sínum bíl, í stað þess að bíða eftir stærri sjúkrabíl sem kæmist yfir. Morgunblaðið segir að Sveinn hafi verið fárveikur en sé nú á batavegi. Til standi að leggja ræsi yfir Þverá, jafnvel í þessum mánuði.