Flytja þurfti tvo fanga­verði með sjúkra­bíl á sjúkra­hús vegna al­var­legrar líkams­á­rásar sem þeir urðu fyrir af hendi fanga á Hólms­heiði um helgina. Meðal á­verka þeirra eru bein­brot og tals­verðir höfuð­á­verkar.

„Ég get stað­fest að tveir fanga­verðir hafi orðið fyrir al­var­legri líkams­á­rás á Hólms­heiði um helgina. Þeir voru fluttir með sjúkra­bíl á sjúkra­hús þar sem gert var að sárum þeirra,“ segir Páll Win­kel for­stjóri Fangelsis­mála­stofnunar.

„Ég get staðfest að tveir fangaverðir hafi orðið fyrir alvarlegri líkamsárás á Hólmsheiði um helgina.“

Páll segir að brugðist hafi verið við at­vikinu af yfir­vegun strax í kjöl­farið og úr­vinnsla málsins verið til fyrir­myndar, af hálfu starfs­fólks fangelsisins. Lög­reglu var strax til­kynnt um málið og kom hún á vett­vang, myndaði brota­vett­vang og tók skýrslur af vitnum.

Páll segir aðdraganda líkamsárásarinnar hafa verið skammann og komið starfsliðinu í opna skjöldu.
Fréttablaðið/Anton Brink

Mennirnir hafa báðir verið út­skrifaðir af sjúkra­húsi og Páll segist vonast til að þeir nái fullri heilsu.

Páll vill ekki tjá sig um að­draganda málsins að svo stöddu að öðru leyti en því að hann hafi verið mjög skammur og komið starfs­liði fangelsisins í opna skjöldu. Fanginn hefur verið fluttur af Hólms­heiði og í annað fangelsi.

Segir fangelsið ekki nógu vel búið

Guð­mundur Ingi Þór­odds­son, for­maður Af­stöðu, segir málið mjög hryggi­legt. Fangelsið sé ekki nógu vel búið til að tryggja öryggi fanga og fanga­varða.

„Fangelsin eru ekki nógu vel mönnuð og hús­næðið, þótt nýtt sé, er alls ekki nógu gott og ekki hannað til að koma í veg fyrir svona upp­á­komur,“ segir hann.

Guðmundur Ingi segir fangelsið ekki nógu vel búið til að tryggja öryggi fanga og fangavarða.
Fréttablaðið/Ernir

Þá segir Guð­mundur að úr­ræða­leysi vegna veikra fanga geti reynst hættu­legt.

„Fanga­verðir hafa hvorki menntun né þjálfun til að veita mjög veiku fólki um­önnun,“ segir hann. Bæði Af­staða og fanga­verðir hafi haft miklar á­hyggjur af því að ein­mitt svona at­vik geti komið upp og marg­sinnis hafi verið varað við þessu.

„Það er ljóst að við verðum að mót­mæla niður­skurðar­kröfu stjórn­valda á fangelsin og hvetjum stjórn­völd til að funda strax.“

Frétta­blaðið hefur ekki fengið stað­fest hvort á­rásar­maðurinn glímir við ein­hver veikindi.