Sjúklingurinn sem greint var frá í morgun að hafi látist úr COVID-19 á Landspítalanum var öldruð kona en þetta hefur Vísir eftir Má Kristjánssyni, yfirlækni á smitsjúkdómadeild Landspítala. Þá segir að konan hafi ekki verið á gjörgæslu þegar hún lést.

Landspítali greindi frá því í tilkynningu í dag að sjúklingurinn hafi látist á Landspítala síðasta sólarhring en Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir í samtali við Fréttablaðið að sjúklingurinn hafi látist í nótt. Hann vildi þó ekki tjá sig frekar um málið.

Líkt og áður hefur komið fram er þetta ellefta dauðsfallið af völdum COVID-19 hér á landi en þetta er fyrsta andlátið frá því í lok apríl, þegar fyrsta bylgja faraldursins gekk yfir. Tíunda manneskjan sem lést var kona á níræðisaldri en hún lést á hjúkrunarheimilinu Begi í Bolungarvík

Samkvæmt upplýsingum á covid.is eru nú 26 eru inniliggjandi á spítala með COVID-19, þar af eru fjórir á gjörgæsludeild. 67 ný innanlandssmit greindust í gær og voru 45 af þeim í sóttkví.

Frá upphafi faraldursins hafa tæplega fjögur þúsund manns greinst með kórónaveiruna og 176 verið lagðir inn á spítala vegna COVID-19. Af þeim hafa 37 manns verið lagðir inn á gjörgæslu.