Einn sjúk­lingur og annar tveggja starfs­manna á blóð- og krabba­meins­deild Land­spítala, 11EG, sem greindust í vikunni reyndust ekki vera smitaðir af CO­VID-19 eftir frekari at­hugun. Greint var frá smitum sjúk­lingsins og starfs­mannanna tveggja í gær.

Að því er kemur fram í til­kynningu á vef Land­spítala voru niður­stöður prófanna ekki af­gerandi og því var á­kveðið að endur­taka þau. „Nú liggur fyrir að bæði prófin voru nei­kvæð. Báðir aðilar eru því lausir úr ein­angrun, sjúk­lingar eru lausir úr sótt­kví og starfs­menn úr vinnu­sótt­kví C,“ segir í til­kynningunni.

Land­spítali er nú á hættu­stigi vegna stöðu CO­VID-19 og eru níu manns inni­liggjandi þar sem einn þeirra sem var inni­liggjandi í gær er ekki lengur í ein­angrun. Tveir eru á gjör­gæslu og eru nú 1066 í eftir­liti á CO­VID-göngu­deild, þrír eru­þar á rauðu en 18 flokkast sem gulir.

Alls eru á­tján starfs­menn í ein­angrun, 20 eru í sótt­kví A og 120 í vinnu­sótt­kví. Vonast er til að stór hluti starfs­manna losni úr sótt­kví eftir daginn í dag.