Í gær greindist inni­liggjandi sjúk­dómur á geð­deild Land­spítala með Co­vid-19. Hann er nú í ein­angrun og eru sex sam­sjúk­lingar hans í sótt­kví. Þá voru þrír ný­út­skrifaðir sjúk­lingar einnig settir í sótt­kví.

Unnið er að rakningu meðal starfs­manna geð­deildar og liggur fyrir að nokkur fjöldi starfs­manna þarf að fara í sótt­kví vegna smitsins en heildar­fjöldi liggur ekki fyrir að svo stöddu að því er segir í til­kynningu frá far­sóttar­nefnd Land­spítala. Allir sjúk­lingar á deildinni voru skimaðir í morgun og er niður­stöðu þeirra að vænta síðar í dag.

Hinn smitaði var með nei­kvætt sýni við inn­lögn en fékk ein­kenni síðustu helgi sem bentu til Co­vid-smits og því tekið sýni í ein­kenna­sýna­töku sem reyndist já­kvætt.

Í ljósi þess hve margir starfs­menn geð­þjónustu þurfa í sótt­kví vegna þessa óskar spítalinn lið­sinnis ein­stak­linga með bak­grunn í geð­heil­brigðis­þjónustu, bæði fag­lærðra jafnt sem ó­fag­lærðra.

Í gær greindist met­fjöldi Co­vid-smita innan­lands, alls 168 smit. Því er mikið álag á Co­vid-göngu­deildinni og óskað hefur verið lið­sinnis bak­varða­sveitarinnar bæði innan og utan spítalans í út­hringi­verið, sem hefur sam­band við þau sem reynast smituð eða þurfa í sótt­kví. Sím­tölum til ný­smitaðra er for­gangs­raðað og því geta þeir sem eru í yngri kantinum og bólu­settir búist við sím­tali ekki fyrr en á næstu dögum.