Em­bætti land­læknis fylgist vel með far­aldri al­var­legra lungna­sjúk­dóma í Banda­ríkjunum sem taldir eru tengjast notkun á raf­rettum. Ekkert til­felli á borð við þau sem upp hafa komið í Banda­ríkjunum hafa verið til­kynnt á Ís­landi.

Þetta kemur fram í til­kynningu frá land­læknis­em­bættinu. Þar segir meðal annars að vel sé fylgst með á lungna­deild Land­spítalans en að þar séu sjúk­lingar spurðir sér­stak­lega út í notkun á raf­rettum.

Aukin notkun mikið áhyggjuefni

„Það er á­hyggju­efni að notkun á raf­rettum hefur mjög færst í vöxt meðal ís­lenskra ung­menna síðustu árin. Um­ræðunni um raf­rettur á að skipta í tvennt, annars vegar sem leið til að að­stoða fólk við að hætta að reykja og hins vegar að börn og ung­menni sem ekki hafa reykt nota raf­rettur í sí­auknum mæli. Þessi aukna notkun ung­menna veldur á­hyggjum þar sem ekki er vitað um á­hrif hennar á heilsu til lengri tíma og hvort hún muni leiða til annarrar tóbaks­notkunar,“ segir í til­kynningunni.

Þá segir að sam­kvæmt nýjustu upp­lýsingum frá heil­brigðis­yfir­völdum í Banda­ríkjunum hafi rúm­lega 450 manns veikst. Fimm dauðs­föll megi rekja til sjúk­dómsins sem hafi verið stað­fest í jafn mörgum ríkjum.

Ekki vitað hvort veikindin tengist tilteknum rafrettum

„Flestir sjúk­linga lýsa ein­kennum sem dæmi­gerð eru fyrir veikindi í öndunar­færum, svo sem hósta, mæði og verk fyrir brjósti. Aðrir hafa jafn­framt fundið fyrir ein­kennum í meltingar­vegi, líkt og ó­gleði, upp­köstum og niður­gangi. Önnur ein­kenni á borð við þreytu, hita og þyngdar­tap hafa jafn­framt verið al­geng meðal þeirra sem veikst hafa.“

Ekki er vitað hvort veikindin tengist til­teknum raf­rettum eða efnum sem eru notuð í þær. Hins vegar séu vís­bendingar um að stór hluti þeirra sem hafi veikst hafi notað raf­rettu­vökva sem inni­hélt vímu­efnið THC (tetra­hydro­canna­bin­ol) eða CBD (canna­bidiol), en veikindin virðast þó ekki einungis bundin við það.