Embætti landlæknis segir áhyggjuefni hversu erfitt er að útskrifa sjúklinga af réttar- og öryggisgeðdeildum Landspítala vegna skorts á úrræðum innan félagsþjónustunnar og á öðrum þjónustustigum heilbrigðisþjónustunnar.
Sjúklingar séu oft lengur en þörf krefur vegna þessa sem er að mati embættisins óásættanlegt og samræmist ekki lögum um heilbrigðisþjónustu.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í úttekt sem gerð var á Réttar- og öryggisgeðdeildum Landspítala.
Úttektin var gerð að frumkvæði embættis landlæknis til að fylgja eftir framvindu mála og úrbóta í kjölfar erindis sem barst embættinu í lok nóvember 2020 frá Geðhjálp.
Nauðsynlegt að bregðast við
Í úttektinni kemur einnig fram að embættið telji óásættanlegt að ekki hafi verið brugðist við ábendingum embættisins frá árinu 2014 sem varði brýnt viðhald á húsnæði öryggisgeðdeildar. „ Frá árinu 2018 hafa sjö rými af ellefu á öryggisgeðdeildinni ekki uppfyllt lágmarksstaðla spítalans um öruggt umhverfi. Samkvæmt mati sem gert var nú í maí 2022 er niðurstaðan nánast sú sama, þó heldur verri. Nauðsynlegt er að bregðast tafarlaust við þessu, þá sérstaklega hvað varðar snyrtingar og sturtuaðstöðu,“ segir meðal annars í úttektinni.
Þá sé heimsóknaraðstaða á öryggisgeðdeildinni óboðleg og nauðsynlegt að bæta aðstöðu fyrir sjúklinga og heimsóknargesti þeirra strax. „Bæta þarf aðgengi að lokuðu útivistarsvæði og tryggja að allir sjúklingar hafi aðgang að útivist daglega og útivistarsvæðin verði meira aðlaðandi. Húsnæði deildanna er víða farið að láta á sjá og þarfnast viðhalds og endurbóta til að umhverfið sé meðferðarvænt.“
Ábendingar frá Geðhjálp
Í erindi Geðhjálpar var áhyggjum og ábendingum komið á framfæri frá nokkrum þáverandi og fyrrverandi starfsmönnum. Ábendingarnar tengdust að mestu mannauðsálum á deilunum en greint var frá samskiptavanda og athugasemdir voru gerðar við stjórnunarhætti.
Embættið telur ljóst að réttar- og öryggisgeðdeildir Landspítala hafi gengið í gegnum erfiðan tíma þar sem togstreita og samskiptaerfiðleikar á milli ákveðinna fagaðila hafi haft neikvæð áhrif á starfsemina í heild sinni og á líðan starfsfólks og sjúklinga.
Lagabreytingar þurfi
Samkvæmt skýrslunni hefur embætti landlæknis fylgt eftir umbótastarfi frá því í desember 2020 með reglulegum fundum með stjórnendum.
„Ljóst er að stjórnendur og starfsfólk hefur unnið markvisst að uppbyggingu starfseminnar. Stöðugt og kerfisbundið umbótastarf er í gangi og atvik eru nýtt til lærdóms. Starfsfólk er meðvitað um mikilvægi gæðastarfs en að mati embættis landlæknis eru þó vísbendingar um að virkja megi fleira starfsfólk og efla það til þátttöku,“ segir jafnframt í skýrslunni.
Þá sé mikilvægt að kynna gæðahandbók betur fyrir starfsfólki ásamt því að endurskoða ákveðin gæði. Tryggja þurfi að sameiginlegur skilningur sé til staðar hjá starfsfólki um þeir reglur sem gildi um starfsemina.
„Embætti landlæknis tekur undir mikilvægi þess sem fram kemur í skýrslu umboðsmanns Alþingis er varðar úrbætur sem tengjast inngripum með þvingunum á RÖG meðal annars um réttmæti vistunar á öryggisgangi, svo og nauðsyn þess að Alþingi geri lagabreytingar þar að lútandi,“ segir jafnframt.
Þá hefur embættið áhyggjur af mannaráðningum, hversu erfiðlega hefur gengið að ráða starfsfólk og er það talið ein helsta áskorun stjórnenda réttar- og öryggisgeðdeilda.