Sjald­gæfur sjúk­dómur sem tengist CO­VID-19 hrjáir nú fjölda barna á heims­vísu. Í ein­hverjum til­vikum veikjast börn sem hafa greinst með CO­VID-19 al­var­lega af sjúk­dómnum og láta lífið. Or­saka­valdur sjúk­dómsins er talinn vera sein­virkt við­bragð ó­næmis­kerfisins við CO­VID-19 veirunni.

Sjúk­dómurinn sem um ræðir þykir minna á Kawa­saki-sjúk­­dóminn sem flokkast sem bólgu­­sjúk­­dómur og leggst einkum á börn. Sjúk­dómurinn ræðst á ýmis líf­færi, til að mynd húð og augu, og nær bólgan iðu­lega til á­kveðins hluta af krans­æðum.

Kawa­saki-sjúk­dómurinn herjar al­mennt á börn undir fimm ára aldri en nýi sjúk­dómurinn virðist einnig leggjast á eldri börn, sem hafa náð allt að 16 ára aldri.

Vaxandi áhyggjur eru af áður óþekktum sjúkdómnum sem þykir minna á Kawasaki-sjúkdóminn.
Fréttablaðið/Getty

Yngsta fórnar­lambið á leik­skóla­aldri

Allt að hundrað börn í Bret­landi hafa sýnt ein­kenni sjúk­dómsins og benda rann­sóknir til þess að svipað sé uppi á teningnum annars staðar í Evrópu. Minnst átta börn hafa verið lögð inn á sjúkra­hús í Lundúnum greind með sjúk­dóminn þar af 14 ára barn sem lést af völdum þess.

Í Banda­ríkjunum liggur grunur á að minnst fimm börn hafi látist vegna sjúk­dómsins í New York-ríki það yngsta fimm ára drengur. Verið er að rann­saka allt að hundrað svipuð til­vik í ríkinu.

Al­­mennt hefur verið talið að CO­VID-19 sjúk­dómurinn leggist ekki þungt á börn en undan­­tekningar virðast vera á því líkt og þessi dæmi sýna.