Trygginga­fé­lagið Sjó­vá hefur rift samningi við FÍB-að­stoð að­eins nokkrum vikum eftir að FÍB gagn­rýndi fé­lagið fyrir milljarða króna greiðslur til hlut­hafa. Þetta kemur fram í til­kynningu sem FÍB sendi fjöl­miðlum í morgun. Lítur FÍB svo á að um sé að ræða refsingu fyrir gagn­rýnina.

Í til­kynningunni er bent á að FÍB-að­stoð hafi annast Vega­að­stoð Sjó­vár frá árinu 2017 og engan skugga borið á þau við­skipti. Þá hafi engar skýringar fylgt fyrir­vara­lausri upp­sögninni.

„Ekki er hægt að á­lykta annað en að stjórn­endur Sjó­vár hafi sagt við­skiptunum upp til að refsa FÍB fyrir gagn­rýni á 5 milljarða króna greiðslur til hlut­hafa trygginga­fé­lagsins. Upp­sögnin barst í lok októ­ber, að­eins fjórum vikum eftir að FÍB birti á­skorun til Sjó­vár um að skila of­teknum ið­gjöldum til við­skipta­vina frekar en láta þau renna í vasa hlut­hafa.“

Í til­kynningu FÍB kemur fram að Sjó­vá hafi greitt fasta upp­hæð mánaðar­lega til FÍB-að­stoðar fyrir að sjá um Vega­að­stoð fyrir fé­laga í Stofni. Kemur fram að samningurinn hafi verið hag­kvæmur fyrir báða aðila. Þannig hafi Sjó­vá ekki þurft að reka sína eigin vega­að­stoð, greiðslan fyrir þjónustu FÍB-að­stoðar létt undir fasta­kostnaði sem hafi munað um í rekstri.

FÍB bendir á að FÍB-að­stoð sé í boði fyrir þá rúm­lega 18 þúsund fé­lags­menn sem eru í fé­laginu. Fé­lagið hafi í ára­tugi gagn­rýnt ó­eðli­lega há ið­gjöld öku­tækja­trygginga og sam­keppnis­skort á trygginga­markaðnum. Þessi gagn­rýni hafi hingað til ekki truflað sam­starfið um vega­að­stoðina enda sé um ó­skyld verk­efni að ræða.

„Afar gott sam­starf hefur verið við starfs­fólk Sjó­vár um þessa þjónustu. Tíma­setning upp­sagnarinnar sýnir ofur­við­kvæmni stjórn­enda Sjó­vár fyrir heil­brigðu að­haldi hags­muna­sam­taka neyt­enda. Hvernig staðið var að upp­sögninni stað­festir þá á­lyktun FÍB,“ segir meðal annars í til­kynningunni sem einnig má lesa í heild sinni á vef FÍB.