Tryggingafélagið Sjóvá hefur rift samningi við FÍB-aðstoð aðeins nokkrum vikum eftir að FÍB gagnrýndi félagið fyrir milljarða króna greiðslur til hluthafa. Þetta kemur fram í tilkynningu sem FÍB sendi fjölmiðlum í morgun. Lítur FÍB svo á að um sé að ræða refsingu fyrir gagnrýnina.
Í tilkynningunni er bent á að FÍB-aðstoð hafi annast Vegaaðstoð Sjóvár frá árinu 2017 og engan skugga borið á þau viðskipti. Þá hafi engar skýringar fylgt fyrirvaralausri uppsögninni.
„Ekki er hægt að álykta annað en að stjórnendur Sjóvár hafi sagt viðskiptunum upp til að refsa FÍB fyrir gagnrýni á 5 milljarða króna greiðslur til hluthafa tryggingafélagsins. Uppsögnin barst í lok október, aðeins fjórum vikum eftir að FÍB birti áskorun til Sjóvár um að skila ofteknum iðgjöldum til viðskiptavina frekar en láta þau renna í vasa hluthafa.“
Í tilkynningu FÍB kemur fram að Sjóvá hafi greitt fasta upphæð mánaðarlega til FÍB-aðstoðar fyrir að sjá um Vegaaðstoð fyrir félaga í Stofni. Kemur fram að samningurinn hafi verið hagkvæmur fyrir báða aðila. Þannig hafi Sjóvá ekki þurft að reka sína eigin vegaaðstoð, greiðslan fyrir þjónustu FÍB-aðstoðar létt undir fastakostnaði sem hafi munað um í rekstri.
FÍB bendir á að FÍB-aðstoð sé í boði fyrir þá rúmlega 18 þúsund félagsmenn sem eru í félaginu. Félagið hafi í áratugi gagnrýnt óeðlilega há iðgjöld ökutækjatrygginga og samkeppnisskort á tryggingamarkaðnum. Þessi gagnrýni hafi hingað til ekki truflað samstarfið um vegaaðstoðina enda sé um óskyld verkefni að ræða.
„Afar gott samstarf hefur verið við starfsfólk Sjóvár um þessa þjónustu. Tímasetning uppsagnarinnar sýnir ofurviðkvæmni stjórnenda Sjóvár fyrir heilbrigðu aðhaldi hagsmunasamtaka neytenda. Hvernig staðið var að uppsögninni staðfestir þá ályktun FÍB,“ segir meðal annars í tilkynningunni sem einnig má lesa í heild sinni á vef FÍB.