„Þú þarft ekki að borga fyrir lögboðnu bifreiðatryggingarnar þínar í maí,“ svona hefst tölvupóstur sem viðskiptavinir tryggingafélagsins Sjóvá fengu sendan í morgun og gladdi eflaust einhverja.

Jóhann Þórsson, markaðsstjóri Sjóvá, segir uppátækið eiga sér smá sögu og að ráðist hafi verið í sömu aðgerð árið 2020. Á verstu tímum í miðjum kórónuveirufaraldrinum hafi fólk verið mikið heimavið og að umferð hafi verið í lágmarki.

„Þá sáum við að tjónatíðni var mjög lág, bílarnir voru ekki að hreyfast því fólk var heima,“ segir Jóhann í samtali við Fréttablaðið.

Vildu ná til sem flestra

Að sögn Jóhanns hafi miklar pælingar farið í það hvernig hægt væri að ráðast í aðgerðir sem snertu á sem flestum viðskiptavinum þar sem allir eru með mismunandi tryggingar.

Því hafi verið ákveðið að að fella niður eða endurgreiða iðgjöld á bílatryggingum viðskiptavina, það hafi gengið ljómandi vel árið 2020 og vildu þeir endurtaka leikinn í ár.

Jóhann segir að þó að umferðin hafi ekki verið eins lítil og árið 2020 hafi fyrirtækið viljað loka Covid-tímabilinu með því að gleðja viðskiptavini.

Í tölvupósti sem viðskiptavinir fengu sendan í morgun segir eftirfarandi:

„Nú lít­ur út fyr­ir að óvenju­legu tíma­bili, sem hef­ur ver­ið sam­fé­lag­inu krefj­andi, sé að ljúka. Rekst­ur Sjóvá hef­ur geng­ið vel í gegn­um þenn­an tíma og við vilj­um að við­skipta­vin­ir okk­ar njóti góðs af því.“

Kostnaðurinn um 600 milljónir

Aðspurður um kostnaðinn vegna endurgreiðslna segir Jóhann hann hlaupa á 600 milljónum króna í ár og það sama hafi gilt árið 2020. Þá hafi stofnendurgreiðslan verið um 780 milljónir króna 2020, hún hafi aldrei verið hærri að sögn Jóhanns og verði sennilega sambærileg í ár.

Jóhann segir Sjóvá muni hafa endurgreitt viðskiptavinum um 2,6 milljarða með þessum greiðslum.

Þá muni þeir sem hafa nú þegar greitt tryggingar fyrir árið fá endurgreitt frá Sjóvá á meðan aðrir sem eru með dreifðar greiðslur fái niðurfelldan kostnað.

Aðspurður hvort viðskiptavinir séu ekki ánægðir með framtakið segir Jóhann svo vera. „Maður fær ekki oft svör við útsendum tölvupósti en núna er inboxið fullt af jákvæðum skilaboðum frá viðskiptavinum.“