Til­kynnt var um sjöunda fórnar­lamb CO­VID-19 kóróna­veirunnar á Ítalíu á þriðja tímanum í dag og hafa þar með minnst fjórir látist á síðast­liðnum sólar­hring. Maðurinn sem lést eftir há­degi í dag var átt­ræður og talið er að hann hafi smitast af veirunni þegar hann lá á sjúkra­húsi.

Al­gengast er að fórnar­lömb sjúk­dómsins séu eldra fólk og fólk með undir­liggjandi sjúk­dóma.

Ný­smitum fjölgar veru­lega

Búið er að stað­fest rúm­lega tvö hundruð til­vik veirunnar í landinu og fjölgaði ný­smitum því um rúm­lega 50 frá því í gær.

Yfir­völd í Austur­ríki skoða nú hvort herða eigi landa­mæra­eftir­lit milli landanna til að koma í veg fyrir frekari dreifingu veirunnar. Al­þjóða­heil­brigðis­stofnunin til­kynnti í dag að stofnunin hygðist senda sér­fræðingar á sínum snærum til að bregðast við sjúk­dómnum.

Hafa enn ekki fundið fyrsta sjúk­linginn

Ítalía er fyrsta landið í Evrópu þar sem ekki er hægt að rekja dauðs­­fall af völdum CO­VID-19 veirunnar beint til Kína.

Um 50 þúsund manns í ellefu bæjum er haldið í sótt­kví og blátt bann liggur við því að ferðast til og frá svæðunum. Yfir­­völd reyna að sporna við út­breiðslu smita með því að sekta þá sem virða ekki út­­göngu­bann. Einnig hefur skólum, líkams­­ræktar­­stöðvum, veitinga­­stöðum og og fleiri opin­berum sam­komu­­stöðum verið lokað tíma­bundið í á­­kveðnum bæjum.