Umfangsmiklar skimanir fyrir Covid-19 hafa farið fram undanfarna daga á Landakoti og á hjartadeild Landspítala. Einn sjúklingur greindist til viðbótar með Covid-smit á Landakoti og alls hafa því sjö sjúklingar þar greinst á síðastliðnum dögum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá farsóttarnefnd spítalans. Þar segir að allt kapp sé á lagt að tryggja mönnun á öllum deildum hans.
Landspítali starfar á neyðarstigi og nú eru Covid-sjúklingar inniliggjandi á sjö legudeildum og báðum gjörgæsludeildum.
Alls eru 46 inniliggjandi á spítalanum með Covid-19. Þar af eru 33 í einangrun og þrettán lausir úr einangrun á ýmsum deildum hans. Sjö eru á gjörgæslu, tveir í öndunarvél. Sex bættust við í gær og fimm voru útskrifaðir.
Í fjarþjónustu Covid-göngudeildar eru 7.941, þar af 2.738 börn. Gulir eru 153 og einn rauður samkvæmt flokkunarkerfi spítalans.
Fjöldi starfsmanna Landspítala er í einangrun, alls 138 og 109 í sóttkví.
„Unnið er sleitulaust að því að manna allar einingar. Mönnun COVID deilda og gjörgæsludeilda er stöðug áskorun og er vinnuframlag stjórnenda fjölmargra eininga fordæmalaust“, segir í tilkynningunni.
Vísir greinir frá að gríðarlegt álag hafi verið á bráðadeild spítalans í Fossvogi í dag og eru hálkuslys helsta ástæðan. Rætt er við Hjalta Má Björnsson, yfirlækni á bráðamótttökunni sem segir þangað leita fólk á öllum aldri vegna höfuðhögga og beinbrota.
„Álagið hefur verið mikið vegna þessara slysa. Núna þessa stundina erum við með tuttugu og sjö til meðferðar á deildinni sem hafa lent í hálkuslysum,“ segir Hjalti Már. Hann hvetur fólk til að fara varlega enda er hálka mikil á höfuðborgarsvæðinu.