Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Föstudagur 21. janúar 2022
22.45 GMT

Á morgun, sunnudaginn 23. janúar, verða liðin sjötíu ár frá því Valgeir Guðjónsson kom í heiminn á Fæðingarheimilinu við Eiríksgötu. Svo snjóþungt var þann janúarmánuðinn að ferja þurfti Margréti Árnadóttur, móður Valgeirs, með frumburð sinn frá Eiríksgötu að Njálsgötunni á snjóbíl.

Valgeir ætlar að fagna tugunum sjö á hógværan hátt, þó svo eiginkona hans, Ásta Kristrún sem er sjaldnast langt undan, laumi því að í spjalli okkar að ætlunin sé að fagna sjötugasta aldursárinu í 365 daga.

Ég hitti Valgeir í íbúð sem þau hjón hafa tekið á leigu í Vesturbænum í Reykjavík. Undanfarin átta ár hafa þau búið og starfað á Eyrarbakka og gera enn, afdrepið í Vesturbænum er hugsað til að geta verið með annan fótinn í bænum þessa mánuðina þegar hvað snjóþyngst er yfir heiðina.

Við byrjum á byrjuninni, þennan snjóþunga janúardag árið 1952. „Þeir voru tveir sem báru okkur inn enda máttu konur ekkert gera eftir barnsburð og við lágum í viku inni í Fæðingarheimilinu,“ segir Valgeir.

„Hver heldurðu að hafi borið ykkur upp til ömmu og afa? Enginn annar en Gunnar Huseby,“ rifjar hann upp hlæjandi og á þá við kúluvarparann og afreksíþróttamanninn sjálfan.

„Bílstjórinn var svo sjálfur Guðmundur Jónasson en enn aka um bæinn rútur merktar honum. Hann var eigandi snjóbílsins sem var kallaður Gussi. Ég átti nú síðar eftir að kynnast honum betur þegar hann keyrði okkur oft á skíði.“

Nú sjötíu árum síðar er erfitt að ímynda sér að þurft hafi snjóbíl til að komast gatna á milli í miðbænum enda marautt í Vesturbænum og ekkert útlit fyrir að breyting verði á því.

„Já, nú er snjórinn á hröðu undanhaldi. Ég var mikið á skíðum í gamla daga og fór alltaf þegar það var hægt. En það er svolítið síðan ég fór að hugsa: Látum þau bara skíða,“ segir hann í léttum tón, fullsaddur á skíðamennskunni þó að hann segist hafa verið góður skíðamaður.


Lærði að lesa þriggja ára


Fyrstu árin bjó Valgeir ásamt foreldrum og ömmu Sigríði og afa Valgeiri í miðbænum og segist sjálfur hafa verið kallaður innipúki enda hafði hann meira gaman af því að sökkva sér í bækur en að taka þátt í ærslaganginum utandyra.


„Ég lærði að lesa fyrir fjögurra ára aldur en það var frænka mín, Guðrún Þorvarðardóttir, sem starfaði lengi í leikhúsunum sem kenndi mér það. Hún var fimm árum eldri en ég og bara tók litla frænda, stillti honum upp með Moggann sem var alltaf keyptur á mínu æskuheimili enda faðir minn mikill Sjálfstæðismaður, og lét hann lesa.“


„Ég lærði að lesa fyrir fjögurra ára aldur en það var frænka mín, Guðrún Þorvarðardóttir, sem starfaði lengi í leikhúsunum sem kenndi mér það."


Valgeir lýsir því myndrænt hversu stórt Morgunblaðið hafi verið fyrir tæplega fjögurra ára gamlan lestrarhest. „Það sást kannski í hendurnar á endunum og svo stóðu tveir litlir fætur niður úr blaðinu.“

Lestraráhuginn fékk svo sannarlega að blómstra þegar Valgeir dvaldi í fimm sumur á Galtarvita hjá afabróður sínum, vitaverðinum og rithöfundinum Óskari Aðalsteini, Hönnu konu hans, sonum, hundi, ketti og hesti.

„Bókaforðinn á Vitanum nam hundruðum og voru allir veggir huldir bókahillum,“ rifjar hann upp.

„Þetta var þvílíkt gósenland sem ég tel mig hafa búið að allar götur síðan og að hafi styrkt orðvitund mína. Síðan bættist tónlistaráhuginn við en Ríkisútvarpið var miðillinn sem kveikti hann og hefur sá áhugi nú fylgt mér í 60 ár. Meðal laga sem sitja enn í mínu minni frá þessum árum á Vitanum eru til dæmis danska lagið sem sigraði í Evróvisjón og hét Danseviser og íslenska lagið Ég vil fara upp í sveit, með Elly Vilhjálms.“

Valgeir byrjaði ungur að pikka á gítar og enn er gítarinn sjaldnast langt undan. Undanfarin ár hefur hann samið fjölda laga í afslöppuðu umhverfinu á Eyrarbakka. Fréttablaðið/Valli

Valgeir varði einnig tveimur sumrum í íþróttasumarbúðum hjá frænda sínum Vilhjálmi Einarssyni þrístökkvara.

„Hann var óskaplega góður við mig og ég dvaldi sumarlangt í þessum íþróttasumarbúðum.“


Gítarinn hennar mömmu

Fjölskyldan flutti svo í Hlíðargerði í hinu svokallaða Smáíbúðahverfi eða „The small apartments area“, eins og Valgeir rifjar að gamni upp að hafa kynnt æskuslóðirnar fyrir Pekingbúum á tónleikaferð í Kína, mörgum árum síðar.


„Þegar ég kom í bæinn aftur eftir sumrin fór ég snemma að líta gítarinn hennar mömmu hýru auga,“ segir Valgeir og aðspurður segir hann móður sína hafa kunnað vinnukonugripin.

„Við sungum mikið saman, ekki síst eitt sænskt lag,“ rifjar Valgeir upp og raular lagið, hefur engu gleymt.


Hverfið var að byggjast upp og mikið af börnum á skólaaldri.

„Við vorum 34 saman í fyrsta bekk í Breiðagerðisskóla og það lá við að menn ýttu börnunum inn með skóflum og lokuðu á eftir sér,“ segir hann og hlær. „Þetta er svo ólíkt því sem er í dag.“

Þaðan lá svo leiðin í Réttarholtsskóla og þar sem Valgeir gat spilað á gítar var hann munstraður í að koma fram á skólaskemmtun.

„Ég og Ágúst Atlason sem síðar gerði garðinn frægan með Ríó Tríó spiluðum undir hjá stúlknasveit á bekkjarskemmtun. Svo vorum við send að skemmta í Austurbæjarbíó á fegurðarsamkeppni ungu kynslóðarinnar.“


Hituðu upp fyrir Hljóma


Þar hituðu þau upp fyrir Hljóma sem þegar var orðin landsfræg sveit og rifjar Valgeir upp hvernig tilfinning það var fyrir gítarleikarann úr Réttó.


„Maður þorði nú eiginlega ekkert að tala við þá. Þeir voru úr Kef,“ segir hann í léttum tón.

„Ég hefði nú getað sagt þeim að amma mín var fædd í Innri-Njarðvík og bjó þar þegar hún kynntist afa mínum sem þá var í Stýrimannaskólanum í Reykjavík. Allar helgar gekk hann svo til hennar, fram og til baka, hann var náttúrlega smali að austan,“ segir hann og hlær. „Þetta var sannur ásetningur


„Maður þorði nú eiginlega ekkert að tala við þá. Þeir voru úr Kef.“


En aftur í Smáíbúðahverfið þar sem bílskúrsböndin blómstruðu en Valgeir segist frekar hafa farið inn í bílskúr að leika, heldur en út að leika. Það áttu margir úr bílskúrsgenginu eftir að verða þekktir tónlistarmenn hér á landi, svo sem Þórður Árnason gítarleikari, meðal annars Stuðmanna, Gylfi Kristinsson söngvari í fyrstu útgáfu Stuðmanna og síðar í hljómsveitinni Rifsberja og þá Ágúst Atlason söngvari og gítarleikari sem varð landskunnur sem einn af þremur meðlimum Ríó Tríósins.


Á menntaskólaárunum varð svo Spilverkið til og fyrsta plata þeirrar hljómsveitar kom út árið 1975, sama ár og fyrsta plata Stuðmanna, Sumar á Sýrlandi.

„Í MH var allt önnur stemning enda komu nemendur víða að og maður kynntist öðrum krökkum en maður hafði umgengist í níu ár. Þar kynntist ég Sigurði Bjólu sem átti svo góðar græjur og líka örlagaskelminum Jakobi Frímanni.“


Hallærisleg músík í kjallaranum

Stuðmenn urðu til á öðru ári þeirra félaga í Hamrahlíðinni.

„Við fórum niður í skonsu í kjallaranum þar sem ætlunin var að gera ofsalega hallærislega músík. Sem við og gerðum og tónlistin var flutt á árshátíð skólans í Súlnasal Hótel Sögu. Þarna voru lögin Draumur okkar beggja sem síðar rataði alla leið í Með allt á hreinu og svo hitt lagið, Honey will you marry me. Undirtektir voru geigvænlega góðar.”

Lögin bæði á Valgeir og hann segir þau hafa komið hratt og auðveldlega, í rauntíma. „Þannig er það með flest mín lög,“ segir hann og rifjar upp að hafa samið hið geysivinsæla Stuðmannalag Slá í gegn í hljómsveitarrútu á leið frá Egilsstöðum.

„Það komu einhver sex lög út úr þeirri rútuferð. En þegar að þessu lagi kom voru allir orðnir svo þreyttir og timbraðir að þeir nenntu ekkert að vera við hliðina á mér, svo ég bara á þetta lag með húð og hári.“

Árið 1975 kynntist Valgeir eiginkonu sinni, Ástu Kristrúnu, í göngu yfir Leggjarbrjót. „Þetta var í blindaþoku svo hún sá mig ekki almennilega,“ segir hann og hlær en það dylst engum að þar fara samhent hjón.

„Á þessum tíma var ég byrjaður í hljómfræði í Tónlistarskóla Reykjavíkur þar sem ég var svo heppinn að vera í einkatímum í tónsmíðum hjá Jóni Ásgeirssyni tónskáldi sem meðal annars samdi lagið við Maí­stjörnuna. Það er sko skemmtilegur maður.“

Valgeir og Ásta Kristrún eru samheldin hjón, sem reka saman menningarhúsið Bakkastofu, ásamt börnum sínum þremur. Fréttablaðið/Valli

Skólaumsóknin sem týndist


Árið 1977 var gjöfult í lífi Valgeirs en auk þess að þau Ásta eignuðust sitt fyrsta barn af þremur vann hann að gerð þriggja hljómplatna.

Samhliða tónlistinni vann Valgeir á Barnageðdeild Landspítalans á deild fyrir einhverf börn.

„Sú vinna opnaði augu mín fyrir jákvæðum áhrifum tónlistar á einstaklinga sem eiga við geðrænan vanda að stríða,“ segir hann og sá fyrir sér að tónlistarþerapía gæti verið starfsvettvangur sem hentaði honum.

„Þá hafði aðeins einn aðili numið það fag og þrautin þyngri að komast inn í skóla erlendis þar sem fagið var kennt. Örlögin gripu í taumana þegar umsókn mín í tónlistarþerapíu týndist í diplómatapósti. Menntamálaráðuneytið hafði skrifað meðmæli sem fylgdu umsókninni til að styrkja möguleika minn á að verða tekinn inn í námið í Utrecht í Hollandi sem tók árlega inn örfáa nemendur.“


Heltekinn af Jóhannesi úr Kötlum


Valgeir vildi þó ekki hætta við að fara utan til náms og úr varð að hann og Ásta fóru með soninn til Þrándheims þar sem hún lærði námsráðgjöf og hann lauk námi í félagsráðgjöf.

„Við höfðum meðferðis allt kvæðasafn Jóhannesar úr Kötlum og þeir demantar heltóku mig rækilega á þeim þremur árum sem við vorum í Noregi.“

Útkoman skilaði sér í lagasmíðum við um þrjá tugi kvæða eftir skáldið sem voru síðar gefin út á þremur hljómplötum, tileinkuðum fuglum.

„Þótt ég hafi tekið þessa stefnu þá samdi ég vitaskuld fjölda laga við önnur ljóð og það sem þekktast er úr þeim ranni er Vikivaki, eða Vorið kemur,“ segir Valgeir en það lag hefur sannarlega fest sig í sessi hjá íslenskri þjóð.


„Þótt ég hafi tekið þessa stefnu þá samdi ég vitaskuld fjölda laga við önnur ljóð og það sem þekktast er úr þeim ranni er Vikivaki, eða Vorið kemur.“


Ekki aftur snúið


„Þegar við komum heim hóf Ásta að þróa og móta námsráðgjöf við Háskóla Íslands og ég gerðist forstöðumaður í félagsmiðstöðinni Árseli. En svo kom Með allt á hreinu út,“ segir Valgeir og brosir í kampinn. Kvikmynd Stuðmanna kom út árið 1982 og sló svo rækilega í gegn að ekki varð aftur snúið.

„Ég ákvað því að taka smá rispu með þeim,“ segir Valgeir sem setti félagsráðgjöfina til hliðar og hefur síðan starfað við tónlist og tónlistartengd málefni.

„Ég kvaddi hljómsveitina árið 1988 en þá var ég kominn með skammtinn enda „syntharnir“ (hljóðgervlar) og allar rafmögnuðu lausnirnar mér ekki að skapi. Ég fann mig ekki lengur í teyminu.“


Víkingaskipið breytti stefnunni


Valgeir fór að taka að sér ýmis tónlistartengd verkefni næstu árin en verkefni sem kom upp í hendur hans árið 1992 átti eftir að breyta stefnunni töluvert.

„Þegar ég lít yfir farinn veg og hvar okkur bar niður í námi, í raun fyrir tilviljunarsakir, sé ég sterka tengingu við það sem síðar tók við hjá mér,“ segir hann.

„Þrándheimur sem hét Niðarós í Íslendingasögunum, gegndi afar merku hlutverki á þeim tímum sem Ísland byggðist. Víkingaskipin sigldu upp eftir Niðelfi og Noregskonungar höfðust þar við.

Verkefnið sem mér var falið árið 1992 átti heldur betur eftir að draga dilk á eftir sér. Norski skipakóngurinn Knud Kloster kostaði smíðar á nákvæmri eftirlíkingu af víkingaskipi. Skipið var nefnt Gaia, sem þýðir Móðir Jörð, og því skyldi siglt í því augnamiði að vekja heiminn til umhugsunar um að ganga vel um móður jörð og mikilvægi þess vernda börn heimsins.“


„Þegar ég lít yfir farinn veg og hvar okkur bar niður í námi, í raun fyrir tilviljunarsakir, sé ég sterka tengingu við það sem síðar tók við hjá mér.“


Valgeir var fenginn til að semja myndakynningu með tónlist til að nýta í þeim höfnum sem Gaia lagðist að í og sigldi með áhöfninni frá Bergen í Noregi til Orkneyja og skrifaði opnugreinar um upplifunina í Morgunblaðið.

„Í kjölfarið gerði ég hljómplötuna Gaia í nánu samstarfi við vin minn Eyþór Gunnarsson. Annað víkingaverkefni kom síðan til mín vegna aldamótanna árið 2000 sem í leiðinni var árþúsundarafmæli landafunda Leifs Eiríkssonar. Ég tók þátt í gerð kvikmyndarinnar, Leifur – The man who almost Changed the World, þar sem ég gerði tónlistina og tók þátt í handritsgerð og framleiðslu. Myndin var síðan sýnd á menningarstöðvum sjónvarps um þver Bandaríkin.“


Íslendingasögurnar toguðu


Valgeir segir að eftir Gaia-verkefnið hafi innra með honum áfram kraumað þörf til að vinna með tónlist og textasmíðar á grunni Íslendingasagnanna, enda sérlegur aðdáandi.

Hjónin fluttu á Eyrarbakka, þangað sem Ásta á ættir að rekja, fyrir um átta árum og stofnuðu þar ásamt börnum sínum menningarhúsið Bakkastofu í gamla kaupfélagshúsinu þar sem þau bjuggu sér jafnframt heimili.

„Þá setti ég í fljótt undir mig hausinn og hóf laga- og textasmíðar á ensku um það sem erlendir gestir kalla „The Sagas“ en við nefndum dagskrána strax í upphafi Saga Musica.

Valgeir og eiginkona hans fluttu á Eyrarbakka fyrir um átta árum og hafa komið sér vel fyrir í gamla kaupfélagshúsinu. Fréttablaðið/Valli

Raunin varð reyndar sú að fyrstu árin var lítið um erlenda gesti hjá okkur á Eyrarbakka. Í staðinn voru það Íslendingar sem sóttu dagskrár Bakkastofu. Hins vegar var nokkur eftirspurn eftir Saga Musica utan Eyrarbakka og fórum við með dagskrána á milli hótela, menningarhúsa og um borð í leikhússali skemmtiferðaskipa.“


Saga Musica


Laga- og ljóðabálkurinn Saga Musica telur heil 15 lög sem mynda í heild sinni söguþráð þar sem reynslu og sýn tveggja ólíkra ungra manna frá landnámstímanum er fylgt eftir við afar breytilegar aðstæður.

Valgeir setur á lagið Old man by the fire sem fjallar um mann sem nálgast ævikvöldið og farið er yfir sögu hans.

„Ég var að spila fyrir lítinn hóp bandarískra gesta á Selfossi fyrir ekki svo löngu. Þar á meðal var læknir á níræðisaldri. Við tókum spjall saman þar sem hann sagðist vera líflæknir Barry Gibb. Læknirinn var alveg gagntekinn af tónlistinni – sérlega þessu eina lagi og sagðist vilja láta syngja það yfir sér þegar hann yrði allur,“ rifjar Valgeir upp.

„Tveimur dögum síðar hringdi fararstjórinn en þá hafði læknirinn látist í Reykjavík. Hann bað um lagið sem ég sendi þeim og þetta var sungið í útför hans í Miami.“


„Tveimur dögum síðar hringdi fararstjórinn en þá hafði læknirinn látist í Reykjavík. Hann bað um lagið sem ég sendi þeim og þetta var sungið í útför hans í Miami.“


Sjóferðir, átök og ástir


Hjónin hafa notið fulltingis framleiðandans Sindra Mjölnis Magnússonar, sem hefur valið lög og texta úr lagasafni Valgeirs sem mynda söguþráðinn í Saga Musica.


„Þekking og reynsla Sindra Mjölnis úr heimi kvikmyndagerðar leiddi verkefnið á þessa braut,“ segir Valgeir en hingað til hefur Saga Musica falið í sér flutning laga með breytilegu innihaldi og örkynningum Valgeirs við upphaf hvers lags. Nú er stefnan að vinna tónleika og leikskrá með formála sem greinir frá höfuðpersónunum í söguþræðinum sem lög og textar mynda.

„Sjóferðir, ránsferðir, átök, ástir og hefndir mynda leiðarstefið sem persónurnar í þessum þríhyrningi fléttast inn í,“ segir hann um verkefnið sem hefur hlotið tvo þróunarstyrki og á dagskrá eru næsta sumar tvennir tónleikar í Skálholti og einir í Þjóðminjasafninu en draumurinn er samstarf við Þjóðleikhúsið um heildstæða sýningu fyrir bæði íslenska og erlenda áheyrendur.

„Með þessari nálgun gætu áhrifin reynst hvetjandi fyrir íslensk ungmenni að lesa Íslendingasögurnar, sem mörgum þykja of torveldar og þungar og ungmennin eru flest synd þegar enska er annars vegar.“


Nýtingarkvótinn


„Hér á Eyrarbakka er alveg dásamlegt að vera. Þetta er svo afslappað samfélag. Ef maður er úti að labba og mætir bíl þá vinkar maður,“ segir Valgeir spurður út í lífið á Eyrarbakka, en báðir synir þeirra hafa keypt sér húsnæði og búa hér í þorpinu.

Dóttirin Vigdís Vala er enn í borginni með unnusta sínum en hún starfar fyrir fyrirtækið Össur.

„Við feðgin höfum verið saman í hljómsveit við þriðja mann og kölluðum okkur Þríeykið. En eftir að Covid kom upp býst ég við að við þurfum að finna annað nafn á sveitina,“ segir hann og hlær.


„Hér á Eyrarbakka er alveg dásamlegt að vera. Þetta er svo afslappað samfélag. Ef maður er úti að labba og mætir bíl þá vinkar maður.“


En á morgun eru tímamót, sjötugsafmæli, þó að Valgeir velti sér lítið upp úr því.

„Ég held það breyti nú ekkert miklu að hrökkva í þennan sjötugskassa,“ segir hann. Ásta er sest hjá okkur og bendir á að fyrir áratug hafi eiginmaður hennar fagnað sextugsafmæli sínu með tónleikum í Eldborg.

„Okkur langaði ekki endilega að gera það aftur, en höfum frekar talað um að fagna allt sjötugsafmælisárið, í 365 daga. Og við gerum það að vissu leyti með Saga Musica.“

Þau fara að tala um nýtingarkvótann, að þegar aldurinn færist yfir leiði maður hugann að honum, hversu mikill tími sé eftir til að gera það sem hugurinn stendur til.

„Já, nýtingarkvótinn, jú, ég vil bara klára dæmið og koma Saga Musica í fallegt ferli og lögunum að auki í fast form svo þau megi hljóma víða sem lengst,“ segir hann.

Það er nóg um að vera í Bakkastofu þó svo Covid hafi sett strik í reikninginn eins og annars staðar, en Íslendingar hafa verið duglegir að sækja þau hjón heim og njóta sögustunda, veitinga og tónlistar. En hvernig ætli sé að vera með vinnuna inni á heimilinu, er það ekki álag?

„Nei, í rauninni ekki, enda fáum við eingöngu gott fólk til okkar – hinir fara bara eitthvað annað,“ segir Valgeir að lokum.

Athugasemdir