„Ég er búinn að hjóla um 700 kílómetra núna,“ segir Sigurður Guðni Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður, sem staddur var á Egilsstöðum í gær þegar Fréttablaðið náði tali af honum. Þangað hafði hann hjólað alla leið frá Reykjavík og hyggst hjóla hringinn í kringum Ísland.
Sigurður er ekki að hjóla hringinn í kringum landið í fyrsta sinn. „Ég gerði þetta síðast fyrir tíu árum þegar ég var sextugur og nú er ég að verða sjötugur þannig að ég ákvað að prófa hvort ég gæti þetta aftur,“ segir hann.
„Ég lagði af stað á miðvikudaginn fyrir viku og ætla að reyna að vera kominn aftur til Reykjavíkur á föstudaginn,“ segir Sigurður. Síðast þegar hann hjólaði hringinn fór Sigurður rangsælis í kringum landið svo nú ákvað hann að fara norðurleiðina.
Hann hjólar um 115-180 kílómetra á dag og á um það bil 20 kílómetra hraða. Með Sigurði í för eru kona hans, dóttir og dóttursonur sem keyra svipaða leið og hann hjólar, kvöldin nýta þau svo í að njóta þess sem landið hefur upp á að bjóða.
Borðar helst hnetur og rúsínur
„Ég hjóla í svona einn og hálfan til tvo tíma í einu og stoppa svo til að borða,“ segir Sigurður og bætir við að hann borði mest af hnetum og rúsínum. „Og einhverju svona orkuríku. Svo drekk ég óendanlega af orkudrykkjum.“
Sigurður hefur stoppað á Blönduósi, Akureyri og Mývatni á leið sinni og var á Egilsstöðum í gær. Næsta stopp var Djúpivogur, þangað stefndi Sigurður á að hjóla leiðina um Öxi og niður í Berufjörð. „Ég er með tvö hjól með mér, núna þegar ég fer yfir Öxi sem er ómalbikuð þá er ég á grófum dekkjum annars er ég á götuhjóli,“ segir Sigurður.

Það er búið að vera truflað veður, sól og blíða.
Aðspurður segist Sigurður stoltur af hjólaferðinni sem þó hafi ekki verið auðveld allan tíman. „Það er búið að vera truflað veður, sól og blíða. Það munar rosalega miklu. Maður getur horft lengi og vel á náttúruna og alla fegurðina,“ segir hann og nefnir dæmi um fegurð Dyrfjalla og Herðubreiðar.
„Það var samt ansi erfitt í gær [fyrradag] vegna þess að það var svo mikill vindur á móti mér frá Mývatni á Egilsstaði, bara af því það hefur verið svo mikil sól og hiti þá verður svo mikil hafgola, hún var helvíti hvöss við Jökuldalinn,“ segir Sigurður.
„En þetta verður bara betra og betra með aldrinum,“ bætir hann við að lokum.