Ingólfur Þórarinsson, einnig þekktur undir sviðsnafninu Ingó veðurguð, hefur sent út sjötta kröfubréfið vegna ummæla sem hafa fallið á samfélagsmiðlum.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins varðar sjötta kröfubréfið ummæli sem skilja mætti þannig að ritari þeirra telji að Ingólfur hafi gerst sekur um bæði nauðgun og barnaníð.

Um er að ræða tíst frá Silju Björk Björnsdóttur sem birtist eftir að fyrri kröfubréf voru send og lýsti ánægju með tilboð Halla, eða Haralds Inga Þorleifssonar, um að greiða kostnað þeirra sem fengu bréfin og spurði hvort fólk væri ekki sammála um að moka ekki peningum í nauðgara og barnaníðing.

Silja Björk, sem er fyrirlesari, rithöfundur og einn þáttastjórnenda hlaðvarpsins Kona er nefnd, var stödd í vinnunni þegar Fréttablaðið hringdi og segist ekki hafa fengið bréf.

„Ég hef ekki séð kröfubréfið,“ segir Silja í samtali við Fréttablaðið. Aðspurð segist hún telja tístið vera frekar hlutlaust.

„Þetta er sett fram á mjög hlutlausan hátt og enginn er nefndur á nafn nema Halli. Þetta er almennt yfirlýsing um ástandið í þjóðfélaginu og í dómskerfinu frekar en eitthvað annað. Ef einhver aðili hefur tekið þetta til sín persónulega þá verður sá sami að eiga það við sjálfan sig.“

Tístið birtist eftir að lögmaður Ingólfs sendi út fimm kröfubréf.

Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður Ingólfs sagði í viðtali við Fréttablaðið í dag að þau ummæli sem kærð voru til lögreglu vörðuðu aðeins alvarlegustu ásakanirnar; ásakanir um alvarleg kynferðisbrot.

„Það að hópur fólks hafi ákveðið að beita fyrir sig slagkrafti samfélagsmiðla og ráðast á umbjóðanda minn með nafnlausum ósönnum ásökunum um alvarleg kynferðisbrot gegn börnum og nauðganir, er ekki bara gróf aðför að friðhelgi einkalífs og æru umbjóðanda míns, heldur líka réttarríkinu. Því ef þessi aðferð er samþykkt getur hver sem er fyrirhafnarlaust rústað mannorði hvers sem er í skjóli nafnleyndar“ sagði Vilhjálmur.

Blaðamenn og áhrifavaldar

Fimm einstaklingar hafa þegar fengið kröfubréf frá tónlistarmanninum. Það eru þau Erla Dóra Magnúsdóttir og Kristlín Dís Ingilínardóttir blaðamenn, Edda Falak íþróttakona og áhrifavaldur, Ólöf Tara Harðardóttir, einkaþjálfari og meðlimur Öfga og Sindri Þór Hilmars- og Sigríðarson markaðs­stjóri.

Erla Dóra, blaðamaður DV, er krafin um þrjár milljónir vegna níu ummæla í frétt sem birtist á vef DV þann 3. júlí.

Kristlín Dís, blaðamaður Fréttablaðsins, er sömuleiðis krafin um þrjár milljónir í miskabætur vegna fimm ummæla sem birtust í frétt á vef Fréttablaðsins þann 3. júlí síðastliðinn.

Edda Falak er krafin um þrjár milljónir vegna ummæla sem hún lét falla á Twitter: „Það var þjóðþekktur tónlistarmaður sem nauðgaði mér þegar ég var 17 ára,“ skrifaði hún.

Ólöf Tara er krafin um tvær milljónir, einnig vegna ummæla á Twitter: „Er ÍBV svona hræddir að við að kynna til leiks mann sem nauðgar?“

Sindri Þór er krafin um þrjár milljónir vegna ummæla í athugasemdakerfi við frétt.