Álag í starfi og launakjör eru meginástæða þess að mikill meirihluti starfandi hjúkrunarfræðinga hefur íhugað að hætta störfum á síðustu tveimur árum.

Tveir af hverjum þremur starfandi hjúkrunarfræðingum hér á landi hafa íhugað af alvöru að hætta störfum á síðustu tveimur árum, samkvæmt nýrri og viðamikilli könnun Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, en svör bárust frá hátt í tvö þúsund félagsmönnum.

„Það sem vekur athygli í þessari könnun er að yfir sextíu prósent segjast almennt ánægð í starfi, en samt hafa svo margir hugleitt að láta gott heita,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður félagsins. „Fólki er hlýtt til fagsins, en aðstæður eru að buga það,“ bætir hún við.

Alls voru 2.080 félagsmenn spurðir í könnuninni og þar af bárust svör frá 1.904, en 176, eða 8,5 prósent, svöruðu ekki. Af þeim sem svöruðu kváðust 1.272, eða 66,8 prósent, hafa íhugað af alvöru að hætta í starfi á síðustu tveimur árum, en 632 sögðust ekki hafa gert það, eða 33,2 prósent.

Guðbjörg Pálsdóttir formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Mynd/Aðsend

Meginástæða þess að hjúkrunarfræðingar íhuga að hætta störfum er álag í starfi, en 42 prósent af þeim hópi nefndu það. Ívið færri, eða 33,7 prósent, sögðu að tildrögin mætti rekja til launakjara, 11,1 prósent bar við bágum stjórnunarháttum.

Þá vekur athygli að 75 manns, eða 5,9 prósent, sögðu að ógn við öryggi þeirra á vinnustað hefði vakið upp fyrrgreindar hugmyndir um að láta af störfum.

„Könnunin afhjúpar aðstæður fagfólksins,“ segir Guðbjörg. „Yfir fimmtíu prósent svarenda segja að þau hafi sjaldan, stundum eða aldrei talið sig geta tryggt lágmarksöryggi sjúklinga í upphafi vaktar. Þetta er áminning fyrir okkur sem samfélag,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir.