Samkvæmt nýjum tölum frá Tölfræðistofnun Evrópusambandsins er hlutfall barnsfæðinga utan hjónabands komið yfir 70 prósent á Íslandi. Er þetta hið langhæsta í álfunni en meðaltalið er um 38 prósent.

Í öðru sæti eru Frakkar með um 60 prósent en hlutfallið á hinum Norðurlöndunum er í kringum 50.

Það er nýtt að hlutfall barna utan hjónabands sé hæst á Íslandi. Í upphafi mælinga, árið 1960, var hlutfallið tvöfalt hærra hér en í næsta landi. En þá var hlutfallið þó aðeins 25 prósent á Íslandi og hefur því hækkað um 45 prósentustig á 60 árum.

Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í guðlegri siðfræði við Háskóla Íslands, segir að þó að hlutfall fæðinga utan hjónbands sé svona hátt á Íslandi þýði það ekki að Íslendingum þyki hjónabandið minna virði en öðrum þjóðum. Ástæðan eigi sér líklega rætur aftur í aldir og að Íslendingar nálgist hjónabandið hugsanlega á annan hátt en aðrir.

„Rannsóknir benda til þess að allt aftur á þjóðveldisöld hafi fólk átt börn utan hjónabands og ekki mikið gert úr því,“ segir Sólveig. Kirkjan hafi ekki farið að skipta sér af hjónabandinu fyrr en á 13. öld en barneignir utan hjónabands hafi ekki verið taldar vandamál. „Af einhverjum ástæðum höfum við Íslendingar verið sérlega óheft með þetta.“

Í dag eru fjölskyldur af ýmsum toga, einhleypir, giftir, í óvígðri sambúð eða óskráðri. Sólveig bendir á að á 20. öldinni hafi hin svokallaða trúlofunarfjölskylda orðið algengt fjölskylduform hér og fullkomlega viðurkennd. „Fólk fór af stað, trúlofaði sig og eignaðist börn, en giftingin kom seinna,“ segir hún. „Um miðja öldina var mjög algengt að gifting og skírn fyrsta barns var gerð í sömu athöfninni.“

Viðhorfið til hjónabandsins mótast af siðferðilegum, félagslegum og stundum trúarlegum þáttum. Sólveig segir viðhorfið vissulega hafa breyst á undanförnum áratugum og öldum, frá þeim tíma þegar algert karlaveldi ríkti. En þegar Íslendingar urðu tíunda land heimsins til að heimila hjónabönd samkynhneigðra árið 2010 hafi gildi stofnunarinnar sýnt sig.

„Fólki var mikið í mun að hjónabandið væri fyrir alla, ekki aðeins konur og karla, það væri réttlátt og mannréttindi allra væru virt,“ segir Sólveig. „Fólki var alls ekki sama um hjónabandið. Hér eru hins vegar engin íhaldssöm öfl trúar eða siðferðis sem fordæma fólk fyrir að eiga börn utan hjónabands. Einnig líða börnin ekki fyrir að fæðast utan hjónabands, því að lagaleg réttindi, svo sem til erfða, eru öll hin sömu.“