Ætla má að tíundi hver öryrki á Íslandi verji meira en 75 prósentum af ráðstöfunartekjum sínum í rekstur húsnæðis, samkvæmt fyrstu niðurstöðum könnunar sem Félagsvísindastofnun vinnur nú að fyrir Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ), en niðurstöðurnar verða kynntar á næstu vikum.

Í flestum tilvikum er um leigu að ræða, en greiðslubyrði fatlaðs fólks vegna leigukostnaðar er vel yfir meðallagi í landinu, samkvæmt könnun sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun lét gera á síðasta ári. Þar kemur fram að tæpur þriðjungur öryrkja greiðir meira en 50 prósent af ráðstöfunartekjum sínum í leigu.

„Við höfum miklar áhyggjur af þróuninni,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ. „Til okkar leitar fólk í auknum mæli sem á erfitt vegna lágtekjuvandans sem það glímir við.“

Á meðan allt hafi hækkað, húsnæðiskostnaður, matur, lyf og heilbrigðisþjónusta, hafi framfærsla fólksins ekki batnað í takt við hækkanir á nauðsynjum – og enn sé fólk á framfærslu sem sé langt undir lágmarkslaunum.

„Fötluðu fólki er gert að lifa á um fjórðungi lægri upphæð en sem nemur lágmarkslaunum,“ bendir Þuríður á og segir viðvarandi verðbólgu auka enn á vandann.

Allar kannanir bendi í sömu átt. Í könnun Vörðu, rannsóknarseturs vinnumarkaðarins, fyrir ÖBÍ, kom fram að átta af hverjum tíu eigi erfitt með að ná endum saman. „Og einna harðast bitnar þetta á börnum öryrkja sem geta vart eða ekki tekið þátt í samfélaginu,“ segir Þuríður. „Langverst standa einstæðir fatlaðir foreldrar og börn þeirra.“

Samkvæmt tölum frá Umboðsmanni skuldara er fatlað fólk nú 47 prósent þeirra sem þangað leita. Sú tala hefur hækkað um fimm prósent á milli tveggja síðustu mánaða.

„Þetta er helmingi stærra hlutfall en var árið 2016, en þá voru öryrkjar og fatlað fólk 28 prósent af þeim sem leituðu á náðir Umboðsmanns skuldara.“