Sjö­tíu og tvö börn hafa fengið boð um vistun á leik­skólanum Brákar­borg við Klepps­veg, en nýtt hús­næði leik­skólans var opnað í lok síðustu viku. Gert er ráð fyrir að að­lögun fyrstu barnanna hefist í næstu viku. Þá eru ráðningar starfs­fólks í fullum gangi, en ráðning þeirra hangir saman við tíma­setningar og fjölda barna í að­lögun hverju sinni. Þetta kemur fram í form­legu svari sam­skipta­stjóra Reykja­víkur­borgar, Evu Berg­þóru Guð­bergs­dóttur, um stöðu dag­vistunar­mála.

Þá var leik­skólinn Ævin­týra­borg í Voga­byggð, í hús­næði leik­skólans Bakka, opnaður í vikunni en for­eldrar þrettán barna hafa þegar fengið boð um vistun. Gert er ráð fyrir að bjóða fleiri börnum pláss á komandi dögum og vikum og mun að­lögun hefjast í septem­ber.

Á­kveðið hefur verið að opna leik­skólann Ævin­týra­borgina á Naut­hóls­vegi fyrr en á­ætlanir stóðu til, en þar verður byrjað að taka á móti börnum frá Ævin­týra­borginni á Eggerts­götu 8. septem­ber næst­komandi. Að­lögun nýrra barna mun hins vegar hefjast 12. septem­ber.

Þá sam­þykkti borgar­ráð á fundi sínum í gær kaup á lóð í Foss­vogi, en til stendur að opna nýja Ævin­týra­borg á því svæði fyrir að minnsta kosti eitt hundrað börn.

Þrátt fyrir að skóla­önnin sé hafin hefur borið á því að fjöldi grunn­skóla­barna er enn ekki komin með vistun á frí­stunda­heimili eftir skóla og hefur því langur bið­listi myndast eftir plássi.

Að sögn Evu Berg­þóru er starfs­fólk skóla- og frí­stunda­sviðs að vinna á fullu í því að minnka þennan bið­lista.

„Yfir 300 nýjar um­sóknir hafa borist á undan­förnum dögum og er unnið að því að skipu­leggja starfið eftir eftir­spurn og með til­liti til ráðninga,“ segir Eva, og bætir við að stór hluti starfs­fólks frí­stunda­heimila séu nem­endur í há­skóla, sem þessa dagana séu að finna út úr stunda­skrám og náms­þunga.

„Á hverjum degi styttast bið­listar en ekki er hægt að búast við að skýr mynd fáist á veturinn fyrr en í næstu viku,“ segir Eva Berg­þóra.