Við Þistilfjörð er Rauðanes, náttúruperla sem við fyrstu sýn lætur ekki mikið yfir sér en reynist við nánari skoðun luma á fallegum klettum skreyttum stuðlabergsmyndunum við vogskorna strönd. Það er auðvelt að komast að Rauðanesi sem liggur 30 km vestan við Þórshöfn og álíka langt austur af Raufarhöfn. Skammt frá þjóðveginum er bílastæði og þar er tilvalið að hefja 7 km langa göngu þar sem gengin er hringlaga gönguleið rangsælis. Þetta er þægileg ganga á jafnsléttu sem hentar bæði ungum sem öldnum.

Á Rauðanesi er afar fjölbreytt fuglalíf og upp af klettunum er gróskumikill gróður. Sjósorfnar bergmyndanir stela athyglinni en þessir náttúrulegu skúlptúrar eru oftar en ekki skreyttir snotru stuðlabergi og birtast sem stapar, gatklettar, básar og víkur. Við klettana er mikið fuglalíf og oft sést til lunda en nafnið á einum klettanna er einmitt Lundastapi. Í seinni tíð ber þó meira á fýl og svartbak og innar á grónu nesinu smærri fuglum.

Gluggur er steinbogi sem gaman er að ganga yfir, en er þó ekki fyrir lofthrædda.

Í göngunni um Rauðanes er komið við á Háabjargi sem rís allt að 60 m upp af ströndinni. Efst er einstakt útsýni yfir innanverðan Þistilfjörð og nágrenni en í góðu skyggni sést alla leið út á Langanes. Þarna eru tígulegir klettadrangar með falleg nöfn eins og Brík og Stakkar en sérkennilegasti skúlptúrinn ber nafnið Gatastakkur. Um er að ræða gamlan berggang sem úr fjarlægð líkist risastóru handfangi með fallegu stuðlabergi. Skemmtilegasta nafnið ber þó Gluggur sem var áður hellir en innri hluti þaksins hefur hrunið og eftir stendur myndarlegur steinbogi. Annars staðar á Rauðanesi eru heillegri hellar eins og í Stakkabásum en þar er hellisskúti þar sem nafnið Hannes hefur verið rist í bergið. Segir sagan að þangað hafi fyrir aldamótin 1900 leitað tveir sjómenn í sjávarháska og ritaði annar þeirra nafn sitt með vasahníf í hellisvegginn ásamt upphafsstöfum félaga síns.

Á leiðinni heim er gengið eftir vegi sem liggur að bænum Velli en þar er ekki búið lengur. Að lokinni göngu um Rauðanes er tilvalið að skella sér í sund á Þórshöfn eða heimsækja Raufarhöfn og Kópasker á Melrakkasléttu.

Á Rauðanesi er gaman að fylgjast með sjófuglum í návígi sem halda til í klettunum.