Lóa Pind Aldísardóttir nýtti sér kolviskubitið sem fór að bóla á hjá henni og framleiddi þáttaröð þar sem fjórar kjötætufjölskyldur gerast vegan í fjórar vikur, sjálf tók hún líka þátt og segir niðurstöðurnar hafa komið á óvart.

Lóa Pind er að eigin sögn mikil kjötæta, en af ýmsum ástæðum fór hún fyrir nokkru að hugsa sinn gang.

Það fór að bóla á kolviskubiti hjá mér. Af ýmsum ástæðum. Eldri sonur minn er snarvegan og búinn að vera í allmörg ár og maður fór að taka eftir því að æ fleira ungt fólk var farið að neita sér um dýraafurðir, ekki bara af dýraverndunarsjónarmiðum, heldur líka af loftslags­ástæðum. Svo mætti ég í bekkjargrill hjá yngri syni mínum þegar hann var að byrja í 10. bekk og frétti þá að sjö stúlkur í bekknum hans hefðu orðið vegan yfir sumarið. Þá var mér eiginlega allri lokið. Hvað var ég, fullorðin og átti að heita samfélagslega meðvituð og þroskuð kona, að spúa einhverjum massa af koltvísýringsígildum með mínu mataræði yfir þetta unga fólk? Það gerði eiginlega útslagið,“ útskýrir hún.


Sjálfsagðar breytingar


Hún segist hafa fundið sterkt fyrir því hversu hratt viðhorfin gagnvart hlýnun jarðar hafi breyst síðustu ár.

„Alls konar breytingar á daglegri tilveru sem hefðu verið óhugsandi fyrir fimm árum – urðu skyndilega sjálfsagðar í augum fólks. Ég meina, fyrir þremur árum mætti engin manneskja með sómakennd með taupoka út í búð. Nú þykir bara ekkert sjálfsagðara. Skyndilega er annar hver bíll í kringum mann knúinn með rafmagni eða að minnsta kosti tvinnbílar og svo framvegis.“

„Alls konar breytingar á daglegri tilveru sem hefðu verið óhugsandi fyrir fimm árum – urðu skyndilega sjálfsagðar í augum fólks."

Lóu fannst rakið að nýta þennan meðbyr til að skoða ofan í kjölinn hvaða mataræði er skynsamlegt til að draga úr hlýnun jarðar. „Mér fannst blasa við að eina leiðin til að búa til sjónvarpsþætti sem hjálpuðu fólki við að taka upplýsta afstöðu til þess hvað það borðar – væri að draga þetta flókna umræðuefni þráðbeint ofan í innkaupakerruna og inn í eldhús með venjulegu fólki.“

Varð sjálf að taka þátt

Að sögn Lóu var það aldrei ætlunin að drekkja fólki í upplýsingum um koltvísýringsígildi enda muni slíkar tölur engu breyta á innkaupalistum flestra, heldur snúist þetta um að fá á tilfinninguna hvað skiptir máli. Úr varð að Lóa fór í að leita að hópi af skemmtilegum fjölskyldum og plata þær með sér í þessa samfélagstilraun og er afraksturinn þáttaröðin Kjötætur óskast, sem nýverið hóf göngu sína á Stöð 2.

Eins og fyrr segir hefur Lóa alltaf verið hrifin af kjöti og áður en tökur hófust segir hún manninn sinn hafa spurt sig einn morguninn þar sem þau sátu yfir kaffibollanum: „Ætlar þú bara að sitja glottandi hinum megin við borðið og þykjast sýna vegan fórnarlömbunum þínum einhverja hluttekningu?“ Varð henni þá ljóst að til að geta unnið þættina af einhverju viti yrði hún sjálf að taka þátt og finna áhrif mataræðisins á eigin skrokk.

Saknaði eggja og beikons

Tilraunin stóð yfir í fjórar vikur og segir Lóa margt hafa verið erfitt, auk þess sem margt hafi komið á óvart.

„En það var sjúklega erfitt að sleppa ostinum, kjötinu, beikoninu og eggjunum. Mögulega var osturinn erfiðastur. Sérstaklega ofan á vikulegar pítsur heimilisins. En almættinu sé lof, þá er svartur lakkrís og kók vegan. Annars hefði geðslagið sjálfsagt gránað hressilega,“ segir hún og hlær.

„En almættinu sé lof, þá er svartur lakkrís og kók vegan. Annars hefði geðslagið sjálfsagt gránað hressilega.“

Fjölskyldan tók öll þátt, en Lóa býr ásamt manni sínum og syni á unglingsaldri og segir þá ekki hafa kvartað.

„Meira að segja 16 ára sonur minn, sem hefur annars haft mjög afmarkaðan smekk á mat og hafði varla smakkað annað úr plönturíkinu en gúrku og rauða papriku áður en þessi tilraun hófst. En hann var farinn að mæta í Veganbúðina í frímínútum til að sækja sér næringu. Ég eiginlega var standandi hlessa á því hvað hann tók þessu með miklu jafnaðargeði. Hins vegar voru þeir báðir öskrandi hungraðir fyrstu dagana og áttu erfitt með að fá næga fyllingu. Maðurinn minn var svo í Danmörku að heimsækja börnin sín síðustu dagana sem tilraunin var, og grillaði handa þeim lambalæri – en snerti það ekki sjálfur! Það fannst mér vel gert.“

Ekki bara gufusoðið grænmeti


Lóa segir þau hafa þrisvar í viku notast við matarsendingar Einn, tveir og elda sem hafi hjálpað þeim mikið. Einnig hafi allir þátttakendur fengið uppskriftabókina Grænkerakrásir eftir Guðrúnu Sóleyju og segir Lóa hana hafa hentað sér vel.

„Hún leggur mikla áherslu á djúsí veganfóður – ekki svona gufusoðið eða hrátt og sósulaust grænmeti, sem var ímynd mín af grænkeramat áður en ég byrjaði.“ Þrátt fyrir að hafa lært að veganmatur væri ekki bara gufusoðið grænmeti, fannst Lóu sig vanta þriðju víddina í bragðskynið á meðan á tilraun stóð."

Lóu fannst helst vanta góðan veganost í úrval verslana og fann fyrir því þegar vikuleg pítsa var útbúin á heimilinu. Fréttablaðið/Eyþór

„Mig vantaði einhverja vídd í þessa vellíðan sem maður finnur eftir góðan mat og frétti þá af hugtökunum umami og kokumi – x faktorana í bragðskyninu og fór þá að skilja hvað var í gangi.“

Lóa segist hvorki hafa fundið mikinn mun á buddunni á meðan á tilrauninni stóð, né mikla breytingu á líðan sinni almennt.

„Nema þá helst af því að það gat verið erfitt að finna vegan mat þegar ég var á ferðinni í tökum, þannig að ég borðaði stundum of lítið. Það sem ég túlkaði sem óþægilega loftkennt ástand, var sennilega bara næringarskortur. Enda þegar maður er búinn að borða sömu veganvefjuna í vegasjoppum nokkra daga í röð, þá eiginlega langar mann ekki í hana aftur. Ég fór í tvo – þrjá svona vegaskála – þar sem ég bað bara um franskar með tómatsósu.“

Aðspurð hvað henni finnist vanta í vegan úrvalið stendur ekki á svari:

„Veganostur er mjög vondur. Ég reyndi margar tegundir. Fannst þær allar nánast óætar. Og mér fannst vanta meiri sköpunargleði í sjoppuúrvalið.“


Vildi fólk sem elskaði kjöt


Lóa fékk fjórar fjölskyldur til að taka þátt í tilrauninni í fjórar vikur.

„Ég vildi fá fólk sem virkilega elskaði kjöt, svo þetta væri raunveruleg áskorun. Ég vildi líka helst fá eitthvað fólk inn í þetta sem hafði hagsmuni af því að við héldum áfram að borða dýraafurðir,“ segir Lóa sem var staðráðin í að reyna að fá eina bændafjölskyldu með í þessa tilraun.

„Mig langaði að fá inn í umræðuna fólk sem lifir og hrærist í því að framleiða dýraafurðir, sem ég vissi að hefði allt aðrar spurningar og skoðanir en við sem komum ekki nálægt slíkri framleiðslu. Ég hafði því samband við örugglega hálfa bændastéttina áður en ég hnaut um þau dásemdarhjón Hrafnhildi og Ragnar á Litla-Ármóti. Þau eiga orðu skilið fyrir að hafa ákveðið að slá til. Þegar til kom hafði ég fengið fullkominn hóp í þetta: pylsusala og sjoppustjóra, ástríðuveiðimann, bóndadóttur og kúabændur.“

Lóa segir verkefnið hafa kostað mikla vinnu fyrir alla og þurftu allir að skrá matinn sinn í forrit sem hannað var af Eflu verkfræðistofu, til að reikna kolefnisspor neyslunnar: Matarsporið.

„Það var heilmikill tími sem fór í þessar skráningar og var stundum við það að buga fólk. En án samstarfsins við Eflu hefðum við ekki haft neinn möguleika á að átta okkur á hvaða áhrif mataræðið hafði á kolefnissporið.“

Allir þátttakendur fóru í viðamikla heilsufarsmælingu í upphafi og gerð var kolefnismæling á mataræðinu eina viku fyrir tilraun og svo alla tilraunina og segir Lóa niðurstöðurnar sem birtast í lokaþættinum vægast sagt áhugaverðar.