„Ég er búinn að vera með lélega mætingu í haust á bæjarstjórnarfundi og gengst við því. Ástæðan er sú að ég er að stunda aðra vinnu líka,“ segir Guðmundur Gísli Geirdal, sjómaður og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi.

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata, gagnrýnir að Guðmundur Gísli sé við vinnu á sjó þegar hann eigi að vera á bæjarstjórnarfundum. Hann hafi aðeins mætt á einn bæjarstjórnarfund af sjö frá því í júní. Sigurbjörg Erla segir að hann ætti að biðjast lausnar á meðan hann sé á sjó, slíkt séu ekki lögmæt forföll.

Guðmundur Gísli telur það óþarfa að biðjast lausnar. „Það hitti svoleiðis á í haust að ég þurfti að vera á sjó þegar það voru fundir, ég kallaði inn ágætis varamann. Ég myndi aldrei sleppa fundi til að taka frí,“ segir hann.

„Ég bauð mig fram sem sjómaður í bæjarstjórn, það vissu það allir að ég ætlaði ekki að hætta í þeirri vinnu til að gera bæjarfulltrúastarfið að aðalstarfi.“

Hann siglir frá Þórshöfn en hann sé í góðu sambandi við aðra fulltrúa og sinni starfinu þó hann geti ekki mætt á fundi, þá sé símasambandið úti á sjó þess eðlis að erfitt sé að vera þar á fjarfundum. Dregur hann einnig í efa að þegar upp sé staðið sé hann með verri mætingu en aðrir.

„Ég viðurkenni alveg að ég þarf á þessari vinnu að halda, ég hef ekkert aðra vinnu og lifi ekki á 300 þúsund kalli sem bæjarfulltrúi. Nú er ég á leiðinni í land og fer líklegast ekki aftur á sjó fyrr en í maí, þannig að þessir haustmánuðir skipta mig máli,“ segir Guðmundur Gísli.

„Ef allir eru sammála því að það megi ekki sleppa fundi vegna vinnu þá eru skilaboðin þau að þú getir ekki fengið sjómann í þetta starf.“