Um 40 namibískir sjó­menn, sem áður unnu fyrir Sam­herja, kröfðust þess á þriðju­dag við yfir­völd í hafnar­borginni Wal­vis Bay að fá at­vinnu.

Alls unnu um 180 sjó­menn á Sam­herja­skipunum Sögu og Geysi áður en fyrir­tækið hvarf frá Namibíu eftir á­sakanir um mútu­greiðslur. The Namibian greinir frá.

Einn sjó­mannanna, Petrus Hilumbwa, sagði þennan hóp ekki heyra neitt nema innan­tóm lof­orð. „Við vitum að þeir hafa yfir­gefið okkur,“ sagði hann. Ef þeir fengju ekki vinnu ættu þeir að minnsta kosti að fá bætur.

Alls eru 400 sjó­menn at­vinnu­lausir í Namibíu. Margir misstu vinnuna eftir mót­mæli árið 2015 og stjórn­völd hafa boðið út­gerðum afla­heimildir gegn því að ráða þá.

Deriou Ben­son, full­trúi borgar­yfir­valda í Wal­vis Bay, sagði sjó­mennina þurfa að fara með mál sín í gegnum við­komandi verka­lýðs­fé­lag.