Nemandi við Borgar­holts­skóla sem varð vitni að hópslags­málunum í skólanum nú síð­degis segir kennara skólans hafa sjokkerast þegar hnífur kom skyndi­lega við sögu.

„Kennararnir reyndu að stoppa þetta en þeir bjuggust ekki við hníf. Það var náttúru­lega það sem sjokkeraði marga,“ segir nemandi sem var sjónar­vottur að á­tökunum í Borgar­holts­skóla í dag.

Líkt og fram hefur komið voru um­fangs­miklar lög­reglu­að­gerðir í Borgar­holts­skóla um nú um há­degi. Greint hefur verið frá því að ungur karl­maður hafi mætt í skólann vopnaður hafna­bolta­kylfu og hníf.

Nemandinn sem Frétta­blaðið ræddi við segir að fjórir gaurar hafi verið í slag úti á gangi á annarri hæð skólans. Kennarar hafi reynt að skerast í leikinn en fát hafi komið á þá þegar í ljós kom að einn strákanna var með hníf á sér.

„Svo barst þetta niður og eitt­hvað brotnaði, ég giska á að það hafi verið ljós eða rúða,“ segir nemandinn.

„Ég sá einn sem ég vissi að væri nemandi skólans. Svo var annar að reyna að stoppa þetta. Svo voru aðrir þrír ein­staklingar sem ég hef aldrei séð áður og veit ekki hvort þeir voru úr öðrum skólum eða hvað,“ heldur nemandinn lýsingunni á­fram.

Nem­endur voru þá reknir inn í skóla­stofu segir sjóna­votturinn. Þá hafi lög­reglan verið komin og segist hann hafa séð að minnsta kosti fjóra til fimm sjúkra­bíla, marga lög­reglu­bíla og tvo sér­sveitar­bíla.

„Stuttu eftir að löggan var komin náðist að róa þetta niður. Ég sá fjóra fara inn í sjúkra­bíl en veit ekkert hvert eða hvort þeir fóru. Svo var annar leiddur í hand­járnum inn í sjúkra­bíl. Stuttu síðar vorum við svo bara rekin heim.“

Myndband sem nemendur tóku úr skólastofu sýnir sérsveitarmenn gráa fyrir járnum fyrir utan húsnæði skólans.