Sjöunda til­fellið um mis­linga­smit hér á landi hefur verið stað­fest. Þetta kemur fram á vef Em­bættis land­læknis þar sem segir að um sé að ræða 23 ára gamlan ein­stak­ling sem greindist í gær. Sá sé með sögu um bólu­setningu við 12 ára aldur en hann hafði ný­lega verið í um­gengni við smitandi ein­stak­ling. 

Í frétt em­bættisins segir að lík­legt sé að hér sé um að ræða væga mis­linga sem er vel lýst hjá bólu­settum ein­stak­lingum. „Engin hætta er á al­var­legum veikindum í slíkum til­fellum og smit­hætta til annarra lítil. Ekki er þörf á sótt­kví annarra sem um­gengist hafa þann veika af þessu til­efni en hinn veiki verður í ein­angrun í 4 daga eftir að út­brot byrjuðu.“ 

Undan­farið hafi einnig borið á því að bólu­settir ein­staklingar hafi fengið út­brot skömmu eftir bólu­setninguna og hafa greinst já­kvæðir í rann­sóknum fyrir mis­lingum. Þessi ein­kenni eru eðli­leg eftir bólu­setninguna og valda ekki smiti til annarra. Í flestum slíkum til­fellum er ekki á­stæða til sýna­töku en sýna­taka er alltaf háð mati læknis. 

Þetta nýjasta til­felli breytir ekki fyrri við­brögðum við mis­lingafar­aldrinum að sögn em­bættisins.