Miklar hræringar eiga sér stað hjá Ford þessa dagana og skemmst að minnast ákvörðunar fyrirtækisins að hætta smíði alla fólksbíla fyrir Bandaríkjamarkað, nema Mustang. Fleiri hræringar eru þó í bígerð í bílaframboði Ford og það fyrir Evrópumarkað. Þar ætlar Ford að hætta að bjóða Edge bílinn og bjóða í hans stað lengri gerð af Kuga jepplingnum, en hann er með þrjár sætaraðir og rúmar 7 farþega. 

Á síðasta ári var Kuga jepplingurinn söluhæsta einstaka bílgerð Ford í Evrópu og seldust 153.542 eintök af bílnum. Næst söluhæsti bíllinn var Ford EcoSport með 111.856 bíla selda og jókst sala hans um 78% á milli ára. Sala Edge bílsins stóra var hinsvegar mjög dræm, eða aðeins 9.527 bílar og varð 41% minnkun í sölu hans á milli ára. Það er því ekki nema von að Ford dragi Edge af markaði í Evrópu og setji í staðinn Kuga af lengri gerð á markað. Kuga jepplingurinn mun koma af nýrri gerð á þessu ári og fyrsta sinni verður hann framleiddur í lengri útgáfu fyrir Evrópumarkað.