Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag Þorstein Halldórsson í sjö ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn ungum pilti. Þorsteinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því um miðjan janúar en hann hefur tvívegis verið ákærður fyrir brot gegn piltinum og voru málin sameinuð fyrir dómi. 

Fyrri ákæra varðar brot sem áttu sér stað frá því pilturinn var fimmtán ára og þar til hann varð 17 ára. Fyrr á þessu ári var maðurinn svo ákærður í annað sinn. Að þessu sinni fyrir að hafa nauðgað átján ára piltinum allt að sex sinnum á gistiheimili á höfuðborgarsvæðinu dagana 6. til 11. janúar.

Tók klámfengnar myndir af piltinum og braut nálgunarbann

Í dómnum segir að maðurinn hafi „ítrekað tælt hann með fíkniefnum, lyfjum og gjöfum, gefið honum peninga, tóbak og nýtt sér yfirburði sína gagnvart drengnum vegna aldurs- og þroskamunar, til að hafa við sig samræði og önnur kynferðismök á ýmsum stöðum á höfuðborgarsvæðinu.“  Þá er maðurinn meðal annars kærður fyrir að hafa ítrekað ekið ljósmyndir af piltinum á kynferðislegan og klámfenginn hátt og brot gegn nálgunarbanni.

Þegar samskipti Þorsteins og piltsins hófust árið 2015 var hann 54 ára gamall en brotaþoli 15 ára og fjögurra mánaða. Á þeim var því 39 ára aldursmunur.

Heimtaði að pilturinn greiddi skuld með kynlífi.

Tildrög málsins voru að móðir og stjúpfaðir piltsins fóru til lögreglu síðla árs árið 2016 og greindu frá samskiptum piltsins við ókunnan mann sem þau höfðu séð í eftirlitsmyndavél hússins. Í fyrstu héldu þau að málið sneri að fíkniefnaviðskiptum en þegar pilturinn sagði móður sinni frá því að samskiptin væru kynferðisleg höfðu þau, líkt og fyrr segir, samband við lögreglu. 

Pilturinn sagði lögreglu að hann hefði kynnst Þorsteini á stefnumótasíðunni einkamál.is, stuttu eftir það hittust þeir og urðu samskipti þeirra regluleg. 

„Í fyrstu tvö skiptin sagðist brotaþoli ekki hafa fengið neitt fyrir kynmökin, en eftir það hafi ákærði gefið honum tóbak, ýmis fíkniefni, lyf, peninga og tvo síma. Að auki hafi ákærði veitt honum aðgang að greiðslukorti sínu. Hafi ákærði stöðugt minnt hann á að hann stæði í skuld við sig vegna gjafanna og vildi að brotaþoli greiddi þá skuld með kynlífi,“ segir í dómnum.

Snapchat spilaði stórt hlutverk 

Meðal gagna málsins eru afrit af „snapchat“ samskiptum Þorsteins og piltsins á tímabilinu frá 30. maí 2016 til ársloka það ár oh afritaði lögreglan þau úr síma piltsins. Eru þau mikil að vöxtum og telja um 800 skjáskot. Einnig afritaði lögreglan gögn úr síma Þorsteins og var þar að finna ljósmyndir af brotaþola, ljósmyndir af getnaðarlimi, rassi og endaþarmi á ungum manni, svo og myndskeið af brotaþola og ákærða þar sem sjá má piltinn veita manninum munnmök. 

Á einu myndskeiðanna má einnig heyra piltinn lofa að klára öll 100 skiptin fyrir áramót gegn því að Þorsteinn útvegi honum Dexomat. Síðar segir pilturinn að í dag sé 14. nóvember og lofi hann ákærða að klára öll skiptin á morgun. Bæði pilturinn og Þorsteinn viðurkenndu fyrir dómi að með „skiptum“ væri átt við kynmök. Þorsteinn sagðist hins vegar telja að pilturinn hafi þar verið að grínast, enda hefði ekki orðið af þeim kynmökum. 

„Við lestur á þessum „snapchat“ samskiptum þykir hafið yfir allan vafa að ákærði átti ekki aðeins mun oftar frumkvæði að kynmökum, heldur tældi hann einnig brotaþola til fylgilags við sig með peningum og ýmsum fíkniefnum, svo sem weed, kannabis og MDMA, auk lyfsins Oxycodon, eða „Oxy“, en ákærði útvegaði þau og greiddi fyrir að ósk brotaþola,“ segir í dómnum.

3.5 milljónir í miskabætur 

Í dómi Héraðsdóms Reykjaness segir að brotin hafi verið alvarleg og til þess fallin að valda brotaþola andlegri vanlíðan. Nýtti ákærði sér yfirburðastöðu sína gangvart brotaþola, bæði að því er aldur og þroska varðar, en brotaþoli var barn að aldri þegar fyrstu kynni hans og ákærða hófust. 

„Samkvæmt því sem að framan er rakið hefur ákærði verið fundinn sekur um gróf og langvarandi kynferðisbrot gegn brotaþola, sem þá var barn á viðkvæmu þroska- og mótunarskeiði, auk brota á nálgunarbanni. Nýtti hann sér yfirburði sína vegna aldurs- og þroskamunar og tældi hann til kynferðismaka með peningum og öðrum gjöfum, auk fíkniefna og lyfja.“

 „Á þeim tíma ánetjaðist hann sterkum fíkniefnum sem ákærði lét honum í té fyrir kynmök. Segist brotaþoli í dag vera fíkill af þessum sökum og fær það stoð í framburði móður hans og stjúpföður. Á árinu 2017 var hann vistaður á Stuðlum vegna vanlíðunar og áhættuhegðunar. Samkvæmt vottorðum frá barnageðlækni og sálfræðingi er brotaþoli greindur með kvíðaeinkenni, þunglyndi og áráttu- og þráhyggjuröskun, auk ADHD. Þá er hann áhrifagjarn. Allt frá árinu 2016 hefur hann verið í samtalsmeðferð hjá þeim og er enn.“ 

Þorsteinn hefur því verið dæmdur í sjö ára fangelsi og að greiða piltinum 3.5 milljónir króna í miskabætur.