Þeir Sumarliði Veturliði Snæland Ingimarsson og Jón Örvar Gestsson trúlofuðu sig við flugeldasýningu og giftu sig við eldgos. Brúðkaupið var ákveðið með fárra daga fyrirvara og gengu þeir upp með jakkafötin í bakpoka.
Á mánudegi fyrir tæpum tveimur vikum var ákveðið að brúðkaupið yrði föstudaginn eftir og þurftu þeir að hafa hraðar hendur til að allt gengi upp eins og þeir vildu hafa það. Enginn mátti þó vita af fyrirætlunum þeirra og þótti Jóni ekki síst áskorun að segja ekki móður sinni frá.
En voru þeir strax til í að láta verða af hugmynd vinkvenna þeirra og láta gefa sig saman við spúandi eldgos og rennandi hraun?
Jón Örvar: „Mér fannst þetta nú hálf kjánaleg og klisjuleg hugmynd.“
Sumarliði:„Það er samt ekki hægt að segja að þetta sé klisja því það var enginn búinn að gera þetta. Mér fannst hugmyndin geggjuð og var strax til í þetta.“
Ákveðið var að þau fjögur myndu hittast á mánudeginum og á þeim fundi sannfærðust þeir um að láta slag standa.
Jón Örvar:„Þær sögðu okkur að redda jakkafötunum og þær myndu sjá um rest.“

Brúðkaupsundirbúningur
Mánudagur: Jón og Sumarliði hitta Birnu og Evu Maríu hjá Pink Iceland og ákveðið er að stóri dagurinn verði föstudaginn eftir, þann 9. apríl.
Þriðjudagur: Sumarliði fer og lætur pússa trúlofunarhringana og þeir velja sér jakkaföt.
Miðvikudagur: Þau fara upp að gígnum til að skoða aðstæður, hringarnir eru sóttir og fundur haldinn með athafnastjóra.
Fimmtudagur: Sumarliði fer í klippingu og sækir jakkafötin til skraddara sem sá um að stytta buxurnar. Þeir skrifa heit sín sem þeir fóru með við athöfnina.
Föstudagur: Tilvonandi hjónin borða dögurð heima, eru svo sóttir af teymi sem samanstóð af athafnastjóra, ljósmyndurum, vídeótökumanni og aðstoðarfólki og gengið upp að Fagradalsfjalli klukkan 13.
Sumarliði: „Við vorum bara klæddir í gönguföt með jakkafötin í bakpokanum ásamt vatni og nesti.

Útlitið á leið upp ekki gott
Veðurspáin hafði verið tvísýn og á leiðinni upp tók á móti hópnum snjóhríð og þoka svo útlitið var ekki gott. Jón Örvar viðurkennir að hafa verið orðinn svolítið bugaður þegar á leiðarenda var komið enda svo þykkt yfir að gosið sást ekki fyrr en alveg upp að því var komið.
Sumarliði:„Svo þegar við vorum komnir á okkar stað lægði skyndilega og birti til yfir okkur.“
Aðspurðir hvort þeir hafi ekki tekið því sem gæfumerki svarar Jón Örvar í léttum tón: „Jú ég hugsaði bara með mér: God is gay!“
Viðburðastjórarnir höfðu tekið með sér lítinn skiptiklefa sem þær hentu upp og brúðgumarnir höfðu þar fataskipti, við hlið ólgandi náttúrunnar.
Sumarliði: „Rétt áður en athöfnin hófst brast eitthvað og lítið hraunflóð seytlaði fram hjá okkur á meðan við vorum gefnir saman.“

Héldu áformunum leyndum
Það var vinur þeirra Árni Grétar athafnastjóri hjá Siðmennt sem gaf þá saman rétt eins og þeir höfðu ætlað að hafa það hefðu þeir gift sig annars staðar. Eins og fyrr segir héldu þeir áformunum leyndum fyrir öllum enda erfitt að velja úr örfáa til að vera viðstaddir á meðan samkomutakmarkanir miðuðust við tíu manns.
Jón Örvar: „Við sendum svo mömmu og pabba mynd á meðan við töluðum við þau daginn eftir og þau héldu auðvitað að þetta væri fótósjoppað. Þegar við svo sannfærðum þau um að svo væri ekki komu gleðitár og þau voru í skýjunum.“
Eins og fyrr segir trúlofuðu þeir Sumarliði og Jón sig í París, það var árið 2017 og þeir höfðu verið saman í rúm tvö ár. Sambandið átti sér langan aðdraganda enda höfðu þeir vitað hvor af öðrum allt frá menntaskólaárum svo segja má að þeir hafi ekki farið sér óðslega að neinu þó að brúðkaupsundirbúningurinn sjálfur hafi verið óvenju stuttur.

Vissi það strax
Jón Örvar: „Við hittumst fyrst fyrir alvöru árið 2015 og ég vissi það strax þegar ég kynntist honum að mig langaði að giftast honum. Ég fann það strax að þetta var maðurinn minn. Við vorum svo staddir í París á þjóðhátíðardegi Frakka, fyrir framan Eiffelturninn, þegar ég fór á skeljarnar fyrir framan mörg þúsund manns.“
Sumarliði: „Þarna voru samkvæmt fréttum 300 þúsund manns á þessum tímapunkti en það er árlega haldin hálftíma flugeldasýning í tilefni dagsins. Það er spiluð frönsk tónlist allt frá 19. öld og að nútímanum og flugeldarnir springa í takt við tónlistina. Ég hélt utan um hann og við fylgdumst með flugeldunum en ég fann að hann var orðinn svo stífur af stressi og sneri sér svo við tárvotur.
Jón Örvar:„Og spurði hann hvort hann vildi giftast mér.“
Jón Örvar hafði beðið alla ferðina eftir rétta augnablikinu en með í för voru trúlofunarhringar sem hann hafði keypt í New York einhverjum mánuðum áður. Þeir settu sér það markmið að gifta sig innan fimm ára en segja má að heimsfaraldur hafi bæði frestað því og svo síðar ýtt á þá að láta verða af því.
Jón Örvar hafði starfað sem flugþjónn hjá Icelandair í fjórtán ár þegar heimsfaraldur skall á og allt flug í heiminum lamaðist. Ákvað hann þá að söðla um og fara að starfa við það sem hann hafði menntað sig til; skurðhjúkrun. Sumarliði er aftur á móti menntaður leikari og hafði starfað að verkefnum tengdum leiklistinni og meðal annars kennt kúrs í leiklist við Fjölbrautaskólann í Ármúla.
Jón Örvar:Eftir að hafa verið sagt upp í fluginu fór ég að vinna á COVID-göngudeild en Sumarliði var heima þegar öll hans verkefni féllu niður. Hann tók þá upp á því að fara að læra frönsku. Hann fann sig í því og skráði sig í frönsku í háskólanum og er á leið til Parísar í haust í skiptinám í eitt ár.
Ég var þá ákveðinn í að við myndum gifta okkur áður en hann færi út. Mér fannst það betra að við værum giftir ef hann ætlaði að vera í burtu svona lengi. Því var planið að fara bara til sýslumanns og ganga frá þessu og halda svo upp á þetta þegar það væri aftur orðið hægt.“
Það plan breyttist örlítið eins og frægt er orðið þegar þeir tóku tilboði vinkvenna sinna um óvenjulega athöfn við glænýjan eldgíg. Heyra má á spjalli við nýbökuð hjónin að þeir eru sannarlega samstíga þótt ólíkir karakterar séu.
Sumarliði: „Hann nær stundum að halda mér niðri á jörðinni sem ég þarf oft á að halda og ég næ stundum að toga hann með mér upp.“
Jón Örvar: „Hann fær mig til að gera hluti sem ég myndi annars aldrei gera. Sem dæmi vorum við að labba heim af djamminu einn nýársmorguninn. Þegar við gengum yfir frosna Tjörnina tók hann upp símann sinn, fór að spila lagið Africa með Toto og segir: „Förum til Afríku á morgun!“ Fyrstu viðbrögð mín voru að neita en hann gafst ekki upp og daginn eftir flugum við til Cape Town.“