Sonur Diljár Mistar Einars­dóttur, þing­manns Sjálf­stæðis­flokksins, sem er í fjórða bekk í Folda­skóla hefur enn ekki fengið pláss á frí­stunda­heimili, tæpum sjö vikum eftir að skóla­starf hófst í Reykja­vík.

„Mér finnst þetta ó­á­sættan­legt. Mér finnst ó­á­sættan­legt að börn fái ekki grunn­þjónustu í Reykja­vík. Hvað er meira for­gangs­mál? Greini­lega margt,“ segir Diljá Mist í sam­tali við Frétta­blaðið.

Segir vanda­málið vera sér reyk­vískt

Hún segir svo líta út að vanda­málið að manna grunn­þjónustuna sé ein­hvern veginn sér reyk­vískt. En mönnunar­vandi er ein helsta á­stæðan sem Diljá hefur fengið sem skýringu.

„Upp­haf­lega var okkur sagt að þetta væri af því að Reykja­víkur­borg, eitt sveitar­fé­laga, væri að bíða eftir stunda­töflu starfs­manna til þess að geta púslað saman vinnu­dagskrá.“

„Síðan eru liðnir tæpir tveir mánuðir og allir þessir starfs­menn eru væntan­lega búnir að fá stunda­töflurnar sínar og það er ekkert sem hefur breyst,“ segir Diljá Mist.

„Þarf ekki að hita upp fleiri torg og bekki í 101?“

Í Face­book-færslu sem Diljá Mist birti í dag segir hún: „En ég vona að Reykja­víkur­borg geri sér að góðu hækkaðar greiðslur okkar fjöl­skyldunnar til hennar í formi sí­hækkandi fast­eigna­gjalda. Það þarf að jóla­skreyta í mið­bænum og halda vetrar­há­tíð, og þarf ekki að hita upp fleiri torg og bekki í 101?“

Diljá Mist segist tekið dæmi um gæði sem nýtist þeim sem búi í út­hverfunum minna en hjá þeim sem búa í mið­bænum. „Þess vegna tek ég þessi dæmi, sem íbúi í út­hverfi í Reykja­vík. Ég tala fyrir hönd mjög margra sem búa í út­hverfum, að við séum ekki að fá mjög mikið fyrir út­svars­greiðslurnar okkar.“

„Mér finnst að fyrst hefur þú grunn­þjónustuna í lagi og svo getur þú farið að gera eitt­hvað annað,“ segir Diljá Mist og bætir við að annað skipti hana ekki máli þegar hún púslar morgun­deginum saman á hverju kvöldi.

Ekki við starfs­fólki frí­stunda­heimilisins að saka

Diljá Mist segist vera von­góð, en sonur hennar fékk pláss þann 12. októ­ber í fyrra. „Ég er búin að vera í sam­bandi við starfs­fólkið í frí­stunda­heimilinu, sem er að leggja sig allt fram.“

„Það er auð­vitað aldrei fólkið á gólfinu sem er við að sakast. Ég veit að þau eru að reyna eins og þau geta að leysa þetta en þetta þarf bara að byrja ofar. Það þurfa auð­vitað að vera skýr skila­boð frá þeim sem stýra borginni,“ segir Diljá Mist bætir við að henni þyki það leitt að starfs­fólkið taki öllum skömmum og kvörtunum.

Heppin að hafa gott bak­land

„Við erum heppin að eiga heimsins bestu mömmu og ömmu í ná­grenninu sem hefur getað hjálpað. Og höfum fengið að­stoð frá hinni frá­bæru ömmunni og fleirum í fjöl­skyldunni,“ segir Diljá Mist í færslunni og bætir við að ekki allir hafi þetta sterka bak­land.

„Þeir sem eru í verstu stöðunni eru til dæmis inn­flytj­endur, það eru þeir sem eru við­kvæmastir fyrir þessari stöðu. Þeir eru í verstu stöðu þegar kemur að bak­landinu. Ég er bara mjög lán­söm,“ segir hún.