Sjö umferðaróhöpp áttu sér stað á höfuðborgarsvæðinu milli klukkan fimm í gærkvöldi og fimm í nótt. Sjö ökumenn voru auk þess teknir fyrir akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Alls voru 77 mál skráð í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og þrír sem gistu í fangageymslum.
Höfð voru afskipti af tveimur ökumönnum sem óku án ökuréttinda. Annar var einnig grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og reyndi að flýja af vettvangi en án árangurs.
Einn aðili var handtekinn í Hlíðunum grunaður um líkamsárás og hótanir. Tveir voru handteknir í miðbænum, einn var að veitast að fólki en fékk tiltal frá lögreglu, hinn var grunaður um líkamsárás og var vistaður í fangageymslu í þágu rannsóknar.
Hótaði lögreglu lífláti
Einstaklingur í annarlegu ástandi var handtekinn í miðbænum fyrir að vinna eignaspjöll á hraðbanka. Annar var handtekinn í miðbænum þar sem hann var til ama, líkt og segir í dagbókinni. Eftir handtöku hótaði hann lögreglu lífláti. Báðir aðilar voru með fíkniefni í fórum sínum.
Þá var tilkynnt um þjófnað úr verslun í miðbæ Kópavogs. Aðilinn var enn á staðnum þegar lögreglu bar að og var málið afgreitt með vettvangsformi.