Sjö um­ferðar­ó­höpp áttu sér stað á höfuð­borgar­svæðinu milli klukkan fimm í gær­kvöldi og fimm í nótt. Sjö öku­menn voru auk þess teknir fyrir akstur undir á­hrifum á­fengis og/eða fíkni­efna. Alls voru 77 mál skráð í dag­bók lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðinu og þrír sem gistu í fanga­geymslum.

Höfð voru af­skipti af tveimur öku­mönnum sem óku án öku­réttinda. Annar var einnig grunaður um akstur undir á­hrifum á­fengis og reyndi að flýja af vett­vangi en án árangurs.

Einn aðili var hand­tekinn í Hlíðunum grunaður um líkams­á­rás og hótanir. Tveir voru hand­teknir í mið­bænum, einn var að veitast að fólki en fékk til­tal frá lög­reglu, hinn var grunaður um líkams­á­rás og var vistaður í fanga­geymslu í þágu rann­sóknar.

Hótaði lögreglu lífláti


Ein­stak­lingur í annar­legu á­standi var hand­tekinn í mið­bænum fyrir að vinna eigna­spjöll á hrað­banka. Annar var hand­tekinn í mið­bænum þar sem hann var til ama, líkt og segir í dag­bókinni. Eftir hand­töku hótaði hann lög­reglu líf­láti. Báðir aðilar voru með fíkni­efni í fórum sínum.

Þá var til­kynnt um þjófnað úr verslun í mið­bæ Kópa­vogs. Aðilinn var enn á staðnum þegar lög­reglu bar að og var málið af­greitt með vett­vangs­formi.