Sjö mál eru nú til vinnslu hjá teymi þjóðkirkjunnar gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundnu áreiti og ofbeldi.

Öll sjö málin bárust til teymisins í lok síðasta árs, 2021, og hafa tveir prestar verið í leyfi vegna rannsóknar teymisins. Leyfið hefur í þrígang verið framlengt og nú síðast til 1. júlí næstkomandi.

Þetta staðfesta Bragi Björnsson, lögmaður og formaður teymisins, og Pétur G. Markan, biskupsritari, í skriflegu svari við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Að sögn Braga hefur teymið sameinað þrjár tilkynningar saman í eitt mál af þessum sjö málum.

Ásakanir sjö kvenna

Fréttablaðið hefur þegar greint frá því að séra Gunnar Sigurjónsson sé í leyfi vegna rannsóknar teymisins á meintum ásökunum sjö kvenna um kynferðislega áreitni, kynbundins ofbeldis og eineltis.

Sunna Dóra Möller, settur sóknarprestur í Digranes- og Hjallakirkju, sagði í samtali við Fréttablaðið í febrúar að frá því að mál séra Gunnars kom upp hafi verið erfiður tími í prestakallinu.

Aðspurð um hvað yrði ef Gunnar snéri aftur til starfa innan prestkallsins eftir að rannsókn teymisins lyki sagðist Sunna Dóra ekki geta lýst því yfir að allir kvenprestar myndu hætta en taldi líklegt að margir myndu hugsa sinn gang.

Þrettán mál frá stofnun teymisins

Í skriflegu svari Braga við fyrirspurn Fréttablaðsins segir jafnframt að frá stofnun teymisins árið 2019 hafi þrettán mál borist teyminu, þar af átta í nóvember og desember 2021.

Þá hafi teymið lokið könnun á sex málum og í öllum tilvikum hafi það verið mál sem annað hvort heyrðu ekki undir teymið eða tilfelli þar sem tilkynnendur óskuðu eftir því að draga málið til baka.

Að sögn Braga er ekki hægt að gefa einhhlítt svar á tímalengd málanna innan teymisins vegna þess hve misjöfn þau geti verið.

„Tímalengd könnunar ræðst af eðli málsins, fjölda atvika sem eru til könnunnar, fjölda aðila sem þarf að ræða við, magni gagna sem þarf að skoða og fjölda aðila sem eiga aðild að málinu.

Tímalengd könnunar getur því verið mjög mismunandi,“ segir meðal annars í svari Braga.