Margir hafa kvartað undan hefðbundnum aukaverkunum vegna bólusetningar gegn kórónaveirunni. Tæplega fimm þúsund manns voru bólusettir þann 29. desember þegar fyrstu skammtar Pfizer bóluefnis bárust til landsins og af þeim hafa sjö tilkynnt Lyfjastofnun um aukaverkanir.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Alma D. Möller landlæknir fóru yfir stöðuna á upplýsingafundi almannavarna í dag ásamt Rögnvaldi Ólafssyni aðstoðaryfirlögregluþjóni.

Bæði Þórólfur og Alma sögðust hafa heyrt frá mörgum bólusettum um hefðbundnar aukaverkanir, þ.e. beinverki, hita og þrota á stungustað.

Alma sagðist hafa tekið stöðuna hjá Lyfjastofnun og heyrt þar af sjö tilvikum. „Ég kannaði það í morgun frá Lyfjastofnun og fékk þær upplýsingar að það hafi komið sjö tilkynningar og þar af hugsanlega ein alvarleg. En það var algjörlega óljóst með orsakasamband þar vegna undirliggjandi sjúkdóma.“

Sagði hún gleðilegt að fólk hugsi um aukaverkanir og tilkynni þær til Lyfjastofnunar. Það sé hægt að gera með því að fylla út form á vefsíðu þeirra.