Rúmlega sjö þúsund dauðir selir og kópar hafa rekið á land við strendur Namibíu á nokkrum vikum. Reuters greinir frá og hefur eftir sjávarlíffræðingnum Naude Dreyer hjá samtökunum Ocean Conservation Namibia.

Selirnir hafa flestir rekið á land við Pelican Point skagann sem er vinsæll ferðamannastaður þar sem finna má stórt kæpingarsvæði sela.

Samtökin hafi tekið eftir því að stór hluti hræjanna fyrstu vikurnar hafi verið af kópum en nú hafi færst í aukana að þau finni fullvaxta kvenkyns seli.

Sérfræðingar vita ekki fyrir víst hvað olli því að selirnir drápust en telja líklegt að þeir hafi drepist úr sulti. Uppistaðan í fæðu sela er fiskur sem hefur fært sig um set frá Pelican Point.

Sjávarútvegsráðuneyti Namibíu segist ætla að senda sýni af hræjunum til rannsókna í Suður-Afríku en það gæti tafist vegna reglna um flutning hættulegra dýraafurða- og sýna milli landa.