Tæpur mánuður er frá því að eld­gos hófst í eld­fjallinu Cum­bre Vieja á La Palma á Spáni og ekkert lát virðist vera á hraun­flæðinu. Alls þurftu 300 manns til við­bótar við aðra 900 að yfir­gefa heimili sín vegna nýs hraun­flæðis í síðustu viku.

Á vef spænska miðilsins El País kemur fram að hraun­flæðið hafi verið það mikið síðasta fimmtu­dag að gígurinn hafi ekki ráðið við flæðið og það flæddi yfir. Hér að neðan má sjá mynd­band sem Eld­fjalla­mið­stöð Kanarí­eyja, Invol­can, tók af því.

Á vef spænsku jarð­fræði­stofnunarinnar og á vef eld­fjalla­mið­stöðvarinnar segir að þetta sé eðli­leg sveifla í hraun­flæði og að það muni ná jafn­vægi.

Rýmdu fjölda húsa í vikunni

Á vef El País segir að sveitar­fé­lagið Los Lla­nos de Ari­da­ne hafi í þrí­gang þurft að rýma frá þriðju­degi til fimmtu­dags en stærsta rýmingin var á þriðju­dag þegar heimili 800 manns voru rýmd í bænum La Laguna vegna þess hve hraun­flæðið var komið ná­lægt heimilum þeirra.

Á mið­viku­dag voru heimili 100 ein­stak­linga rýmd og svo á fimmtu­dag, 12 tímum seinna, þurftu 300 manns auka­lega að yfir­gefa heimili sitt. Alls hafa um sjö þúsund þurft að yfir­gefa heimili sitt eftir að gosið hófst en hraun­flæðið hefur þakið um 675 hektara alls og flæddi í vikunni alveg niður í sjó, í At­lants­hafið.

Hraunið hefur haft á­hrif á um 1.634 byggingar á La Palma og af þeim eru 1.548 ó­nýtar.

Hér að má sjá mynd­skeið sem sýnir hraun­flæðið í La Laguna.

Hér að neðan má svo sjá myndskeið sem eru tekin í dag.