Sjö starfs­menn á leik­skólanum Tjarnar­sel í Reykja­nes­bæ eru með CO­VID-19 sjúk­dóminn, þar af hafa tveir starfs­menn þurft að fara inn á spítala, sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins.

Einn starfs­maður var lagður inn á gjör­gæslu en sam­kvæmt upp­lýsingum frá Reykja­nes­bæ er búið að út­skrifa hann af gjör­gæslu og er hann á bata­vegi. Þetta stað­festir Helgi Arnar­son, sið­stjóri fræðslu­sviðs Reykja­nes­bæjar. Annar starfs­maður leik­skólans var fluttur frá Reykja­nes­bæ á Land­spítalann í Foss­vogi í morgun eftir að veikindin höfðu versnað.

Leik­skólanum var lokað í síðustu viku. Fyrsta smit var staðfest föstudaginn 13. mars og var því ákveðið að opna ekki leikskólann á mánudeginum 16. mars. „Honum er lokað til 30. mars en við tókum á­kvörðun í gær, vegna þess að það komu upp þessi smit á heillri viku, að fram­lengja lokun til 1. apríl . Sem er mið­viku­dagurinn í næstu viku og hann verður sótt­hreinsaður hátt og lágt á mánu­dag,“ segir Helgi í samtali við Fréttablaðið.


Ekki raun­hæft að halda börnum 2 metra frá hvert öðru

Á sunnu­daginn sendi Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir og Alma D. Möller land­læknir bréf á alla skóla­stjórn­endur í grunn- og leik­skólum um að halda eigi skóla­starfi á­fram fyrir öll heil­brigð börn. Sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins eru margir skóla­stjórn­endur reiðir yfir þessu enda sam­komu­bann í gildi og fjöl­mörgum vinnu­stöðum verið lokað. Þá er gríðar­lega erfitt að halda skóla­starfi gangandi í sumum skólum vegna starfs­manna­skorts. Þá sé einnig afar erfitt í mörgum tilfellum að tryggja tveggja metra fjar­lægð milli barna.

Fyrr í vikunni hafði Frétta­blaðið sam­band við Ragnar Þór Péturs­son, for­mann Kennara­sam­bands Ís­lands, og spurði hvort skóla­starfs­fólk og kennarar hefðu ekki á­hyggjur af því að smitast. Ragnar sagði kennara einnig hafa á­hyggjur af því að smita börnin. „Þeir myndu koma þannig smiti inn á fjöl­­mörg heimili. Þetta á sér­­stak­­lega við yngstu börnin þar sem það er ekki raun­hæft að börnin sitji tvo metra hvert frá öðru allan daginn,“ sagði Ragnar.

Skóla­starf hefur verið fellt niður víða í Evrópu og sums staðar er því einungis haldið úti fyrir börn fram­línu­fólks meðan barist er við far­aldurinn.