Sjö eru slasaðir eftir minniháttar sprengingu í miðborg Lyon í Frakklandi. Talið er að bögglasprengja, full af nöglum, hafi verið sprengd og er málið eins og stendur rannsakað sem hryðjuverk.

Sprengjan sprakk í miðborg Lyon á háannatíma, klukkan hálf sex á staðartíma. Emmanuel Macron Frakklandsforseti fylgist með gangi mála, og lögreglustjóri Lyonborgar er á vettvanginum ásamt saksóknurum.

Fréttastofa CNN ræðir við Hanane Benakkouche, sem er þjónn á veitingastað í nágrenni við götuhornið sem sprengingin varð. „Við heyrðum sprengingu. Ég var að vinna á veröndinni og fólk tók til fóta,“ sagði hún. „Lögreglumenn voru fljótir á vettvang. Ég er enn í áfalli.“

Verið er að hlúa að hinum slösuðu, og hefur lögreglan sagt að aðalforgangsatriði hennar væri að koma hinum slösuðu til hjálpar. Leitað verði skýringa á sprengingunni síðar.