Óhætt er að segja að framleiðendurnir fari óhefðbundnar leiðir með þessum bílum, enda hafa þeir báðir vakið mikla athygli. Ljósabúnaður EV9 er sérstakur, sem og kassalaga útlitið með sínum hvössu línum.

Kringum hjólin eru áberandi bretta­útvíkkanir og afturrúðan er innfelld. Hin svokallaða vélarhlíf er nú sólarsella og þakbogar eru innfellanlegir.

Um stóran bíl er að ræða sem er næstum fimm metra langur og hjólhafið er 3.100 mm sem er 200 mm lengra en í Kia Tellu­ride. Hægt er að velja um nokkrar stillingar á innanrými og er Active Mode hefðbundin akstursstilling, á meðan Pause Mode breytir miðjusætaröðinni í borð.

Hyundai SEVEN er líka tilraunabíll sem er hér forsýndur sem framleiðslubíll. Von er á bílnum 2024 á markað, svo að líklega mun hann ekki breytast mikið þangað til.

Bíllinn er með lágt húdd, bogalínu í þaki og mikið hjólhaf sem gerir hann nokkuð óvenjulegan. Pixluðu framljósin ná nú yfir allan framendann og afturhlerinn er gegnsær. Undirvagninn er sá sami og á Ioniq 5 en hjólhafið er enn meira en á EV9 eða 3.200 mm. Þess vegna er innanrými mikið með flötu gólfi og líkt og í EV9 er hægt að breyta sætaröðum með margs konar hætti, þótt ólíklegt sé að slíkt sjáist í framleiðslubílnum.

Tilraunabíllinn er sagður hafa yfir 500 km drægi en Ioniq 5 er með tveimur mótorum og skilar 306 hestöflum, svo að þessi bíll hefur allavega úr því sama að spila, ef ekki talsvert meiru