Kia kynnti í gær fyrstu myndirnar af nýjum hugmyndabíl sem ber heitið Kia EV9. Um er að ræða hreinan rafbíl sem kemur í kjölfarið á frumsýningu á Kia EV6 en Kia EV9 er væntanlegur á markað 2023.

Um sjö sæta bíl er að ræða sem er mikill um sig svo að ekki verður hægt að selja hann á sumum mörkuðum í Evrópu en telja má líklegt að hann fari í sölu á Íslandi samt sem áður.

Innandyra verður mjög breiður upplýsingaskjár sem nær yfir miðjustokk bílsins.

Að sögn Kia verður hægt að breyta uppsetningu innandyra sem gefur til kynna að hægt sé að færa til sæti meira en áður. Bíllinn mun að öllum líkindum koma á E-GMP undirvagninum og hafa meira drægi en EV6 þar sem meira pláss er fyrir stærri rafhlöðu.

Kia EV9 verður frumsýndur formlega á bílasýningunni í LA sem hefst í næstu viku og munu koma nánari upplýsingar um bílinn í næsta bílablaði Fréttablaðsins.