Sjö hafa sótt um tvö laus em­bætti dómara við Lands­rétt sem aug­­lýst voru í síðasta mánuði. Ást­ráður Haralds­­son héraðs­­dómari er meðal um­­­sækj­enda en hann sækir nú um dómara­em­bætti við Lands­rétt í fimmta sinn. Sitjandi dómari við Lands­rétt, Ragn­heiður Braga­dóttir, er einnig meðal um­sækj­enda.

Þeir sem sækja um em­bættin tvö eru:

  • Ástráður Haraldsson, héraðsdómari
  • Hildur Briem, héraðsdómari
  • Jóhannes Rúnar Jóhannsson, lögmaður
  • Jón Höskuldsson, héraðsdómari
  • Kjartan Bjarni Björgvinsson, héraðsdómari
  • Ragnheiður Bragadóttir, dómari við Landsrétt
  • Stefán Geir Þórisson, lögmaður

Dóms­mála­ráðu­neytið aug­lýsti em­bættin tvö laus til um­sóknar þann 19. júní síðast­liðinn. Önnur staðan losnaði vegna þess að Sigurður Tómas Magnús­son sem sat í annarri þeirra hefur verið skipaður dómari við Hæsta­rétt en hin staðan sem nú er laus er staða Arn­fríðar Einars­dóttur.

Arn­fríður hafði verið skipuð dómari við Lands­rétt þegar dóm­stólnum var komið á lag­girnar en hún var ein þeirra fjögurra sem þá­verandi dóms­mála­ráð­herra Sig­ríður Á. Ander­sen skipaði sem dómara þegar hún vék frá hæfnis­mati dóm­nefndar um skipun fimm­tán dómara við réttinn.

Þeir fjórir dómarar sem Sig­ríður skipaði en voru ekki meðal þeirra hæfustu sam­kvæmt mati nefndarinnar hafa ekki tekið þátt í dóm­störfum frá því að Mann­réttinda­dóm­stóll Evrópu komst að því að skipun þeirra hefði ekki verið í sam­ræmi við lög.
Arn­fríður var í síðasta mánuði ráðin í aðra lausa dómara­stöðu við Lands­rétt þó hún væri sitjandi dómari og því losnaði gamla staða hennar um leið.

Ást­ráður Haralds­son, sem sækir nú um dómara­stöðu við Lands­rétt í fimmta skipti, var þá á meðal þeirra fimm­tán hæfustu sem dóm­nefnd um hæfni um­sækj­enda mat hæfasta þegar Lands­réttur var stofnaður árið 2017. Nefndin mun nú meta þessa sjö um­sækj­endur og mun dóms­mála­ráð­herra skipa dómarana eftir að matið liggur fyrir.