Sjö hafa sótt um tvö laus embætti dómara við Landsrétt sem auglýst voru í síðasta mánuði. Ástráður Haraldsson héraðsdómari er meðal umsækjenda en hann sækir nú um dómaraembætti við Landsrétt í fimmta sinn. Sitjandi dómari við Landsrétt, Ragnheiður Bragadóttir, er einnig meðal umsækjenda.
Þeir sem sækja um embættin tvö eru:
- Ástráður Haraldsson, héraðsdómari
- Hildur Briem, héraðsdómari
- Jóhannes Rúnar Jóhannsson, lögmaður
- Jón Höskuldsson, héraðsdómari
- Kjartan Bjarni Björgvinsson, héraðsdómari
- Ragnheiður Bragadóttir, dómari við Landsrétt
- Stefán Geir Þórisson, lögmaður
Dómsmálaráðuneytið auglýsti embættin tvö laus til umsóknar þann 19. júní síðastliðinn. Önnur staðan losnaði vegna þess að Sigurður Tómas Magnússon sem sat í annarri þeirra hefur verið skipaður dómari við Hæstarétt en hin staðan sem nú er laus er staða Arnfríðar Einarsdóttur.
Arnfríður hafði verið skipuð dómari við Landsrétt þegar dómstólnum var komið á laggirnar en hún var ein þeirra fjögurra sem þáverandi dómsmálaráðherra Sigríður Á. Andersen skipaði sem dómara þegar hún vék frá hæfnismati dómnefndar um skipun fimmtán dómara við réttinn.
Þeir fjórir dómarar sem Sigríður skipaði en voru ekki meðal þeirra hæfustu samkvæmt mati nefndarinnar hafa ekki tekið þátt í dómstörfum frá því að Mannréttindadómstóll Evrópu komst að því að skipun þeirra hefði ekki verið í samræmi við lög.
Arnfríður var í síðasta mánuði ráðin í aðra lausa dómarastöðu við Landsrétt þó hún væri sitjandi dómari og því losnaði gamla staða hennar um leið.
Ástráður Haraldsson, sem sækir nú um dómarastöðu við Landsrétt í fimmta skipti, var þá á meðal þeirra fimmtán hæfustu sem dómnefnd um hæfni umsækjenda mat hæfasta þegar Landsréttur var stofnaður árið 2017. Nefndin mun nú meta þessa sjö umsækjendur og mun dómsmálaráðherra skipa dómarana eftir að matið liggur fyrir.