Sjö manna fjöl­skylda bú­sett á Sel­tjarnar­nesi býr nú við að allir með­limir fjöl­skyldunnar eru smitaðir af CO­VID-19 kóróna­veirunni. Fjöl­skyldu­faðirinn segir það vera veru­lega kvíða­valdandi að vita að þriggja mánaða dóttir hans sé smituð af svo ó­þekktri veiru.

„Þetta vekur hjá manni ótta, þó svo að maður heyri að þetta leggist minnst hjá ung­viði þá er ekki alveg vitað með allra yngstu börnin sem smitast af þessari ó­væru,“ segir Guð­mundur Sig­bergs­son, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Flest smit á einu heimili

Guð­mundur og eigin­kona hans, Lilja Páls­dóttir, lýsa því að mikið álag fylgi því að sinna fimm börnum á öllum aldri sem hafa verið svo lengi frá skóla á­samt því að berjast við veiruna.

Læknir sem heim­sótti fjöl­skylduna í dag sagðist ekki vita til þess að smit hefðu komið upp hjá jafn stórum hóp hér á landi hingað til.

Heim­sóknin í dag var til­komin þar sem taka átti sýni úr yngstu dótturinni, Mó­eiði Völu, sem er að­eins þriggja mánaða gömul. „Það var ekki vitað al­menni­lega hvernig ætti að taka sýni úr svona litlu barni fyrr en núna,“ segir Guð­mundur.

Töldu þetta vera flensu

Guð­mundur og Lilja fóru með Mó­eiði á Barna­spítalann síðast­liðinn fimmtu­dag þar sem hún var með hita og fleiri flensu­ein­kenni. „Þá var bara haldið að þetta væri ein­hver flensa á borð við RS eða þessa háttar, enda þótti ó­lík­legt að þetta væri tengt CO­VID-19.“

Eftir að hafa batnað stuttu eftir heim­sóknina á spítalann fór Mó­eiði að hraka á ný síðustu daga. „Læknirinn kíkti á hana í dag og það er í það minnsta ekkert í lungunum svo hún er ekki mikið veik þrátt fyrir að vera svo­lítið las­leg.“ Það hefur þó tekið á for­eldrana að svo ó­þekkt far­sótt hrjái dóttur þeirra.

Læknir heimsótti fjölskylduna í dag til að taka sýni úr Móeiði litlu.

Börnin sluppu vel

Blessunar­lega hafa hin börnin, Rafn 16 ára, Ragnhildur Arna 11 ára, Hrafn­tinna Vil­borg, 6 ára og Arnar Steinn 5 ára sloppið vel undan sjúk­dómnum. Það sama á við um Guð­mund sjálfan sem hefur að eigin sögn verið ein­kenna­lítill. „Rafn og Ragnhildur urðu fyrst veik af okkur og voru að mestu með venjuleg flensueinkenni, "segir Guðmundur. Rafn hefur jafnað sig að mestu og Ragnhildur alveg að verða hress.

Fjölskyldumóðirin, Lilja, hefur verið hvað verst hrjáð af veirunni. „Hún er búin að vera með mikil ein­kenni, er bæði með hita og í lungunum.“

Stöðugt hringt frá vaktinni

Guð­mundur hrósar al­manna­vörnum og lækna­vaktinni ó­spart fyrir hvernig haldið er utan um þá sem hafa smitast. „Við erum náttúru­lega sjö svo konan mín fær sím­tal frá þeim á hverjum degi, fyrst út af sjálfri sér, svo út af elsta barninu og síðan næsta og þannig koll af kolli. Hún er eigin­lega bara stans­laust í símanum vegna þess að verið er að tékka á öllu.“

Guð­mundur nýtir lungann af deginum í að hjálpa orku­boltunum á heimilinu að eyða orkunni þannig að Lilja geti jafnað sig í næði. „En hún er náttúru­lega með þá minnstu mest allan daginn,“ bætir hann við.

„Það er ó­trú­legt álag að sinna öllum sem skyldi. Arnar og Hrafn­tinna hafa verið frá skóla í þrjár vikur fyrst vegna verk­falls og núna í ein­angrun og það er auð­vitað á­kveðin orka sem þarf að losna á hverjum einasta degi hjá þeim.“

Hrafntinna ásamt systur sinni Móeiði í einangrun heima á Seltjarnarnesi.

Ætluðu í sjálf­skipað sótt­kví

Fjöl­skyldan hafði þó tekið þá á­kvörðun áður en smit greindust að vera í sjálf­skipaðri sótt­kví þar til þau fengju niður­stöður úr skimun. „Við áttum tíma hjá Kára Stefáns­syni og á­kváðum að áður en við sendum börnin aftur í skólann þegar verk­fallinu lyki þá myndum við vera búin að stað­festa að við værum alveg örugg­lega ekki með neitt.“

Það kom síðan nokkuð flatt upp á for­eldrana að niður­stöður prófana sýndu að þau væru smituð af veirunni. „Áður en við fórum í ein­angrun vorum við að passa okkur ó­trú­lega vel, þá var maður að spritta sig og fara í hanska í Bónus og Krónunni svo við okkur fannst ekki mjög lík­legt að við hefðum smitast.“

Hlakkar til ó­næmis

„Þetta eru að­stæður sem engin hefur þurft að kljást við áður svo það er víst engin örugg leið til að vernda sig gegn þessum ó­fögnuð.“ Þá sé heil­brigðis­fólkið í landinu að takast á við áður ó­þekktar að­stæður.

Það er í raun ó­trú­legt hve vel vönduð og fag­mann­leg vinnu­brögð við­gangist í þessum far­aldri að mati Guð­mundar. „Maður veit ekkert hvernig þessi pest hagar sér en maður veit að ef eitt­hvað gerist verður allt fyrir mann gert og það er stöðugt verið að taka púlsinn á á­standinu, sem veitir manni von.“

Guð­mundur hlakkar veru­lega til að far­aldurinn gangi yfir og lífið gangi aftur sinn vana­gang. „Það verður líka að viður­kennast að þegar maður er með eitt­hvað sem er alveg splunku­nýtt er ljósið við enda gangsins að maður vonast til að verða ó­næmur fyrir þessu.“ Þá taki spritt­fríir dagar við á ný.

Móeiður litla er ekki alvarlega veik þrátt fyrir að vera með einkenni veirunnar