Alvarlegur skortur er á fagmenntuðum iðnaðarmönnum í byggingariðnaði hér á landi, en ef áform stjórnvalda um að stórauka eigi smíði á íbúðarhúsnæði á kjörtímabilinu eiga að ganga eftir, vantar minnst tvö þúsund nýja starfsmenn í greinina.

Þetta er mat Samtaka iðnaðarins en sérfræðingar á þeirra vegum fylgjast gjörla með þróun á húsnæðismarkaði, meðal annars með reglulegri talningu á fjölda íbúðarhúsnæðis sem er í byggingu á hverjum tíma.

Tæplega 15.000 starfandi í byggingageiranum

Nú eru tæplega 15.000 manns starfandi í byggingageiranum á Íslandi og hefur að sögn Ingólfs Bender, aðalhagfræðings Samtaka iðnaðarins, fjölgað um 1.300 manns frá því að greinin fór að taka við sér fyrir um ári, eftir að viðspyrna hófst á ný í hagkerfinu í kjölfar ládeyðu farsóttartímans.

„En það er ekki nóg, við þurfum að flytja inn vinnuafl, það er alveg ljóst,“ segir Ingólfur og bendir á þversögnina á þessu sviði. „Á síðasta skólavetri var 700 manns vísað frá iðnnámi í landinu af því að stjórnvöld hafa ekki lagt nægjanlegt fjármagn í iðnnám til að mæta þeirri bráðu mannaflaþörf sem er í greininni.

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins.

Fleirum vísað frá í ár

Útlit er fyrir að jafnvel fleirum verði vísað frá í ár, en til stendur að fækka nemendaígildum við Tækniskólann um 80 frá fyrra ári. Það er ekkert samhengi á milli íbúðaskorts og menntunarmöguleika hér á landi,“ útskýrir Ingólfur og segir þetta vera sorglega staðreynd, en mörg hundruð manns á Íslandi þrái að komast í iðnnám hér á landi á hverju ári en sé vísað á dyr.

Fjöldi starfsmanna í byggingariðnaðinum hefur enn ekki náð þeim fjölda sem var fyrir efnahagshrunið 2008, en þá voru um átján þúsund manns við störf í greininni. Þann fjölda þarf að nálgast aftur til að mæta fólksfjöldaþróun Hagstofunnar að mati Ingólfs.

Til að svo verði þurfa hér eftir að klárast árlega um 3.500 til 4.000 nýjar íbúðir ári, en til samanburðar verða innan við 3.000 íbúðir byggðar hér á landi í ár og rétt aðeins yfir þeirri tölu á næsta ári.

„Vandinn er líka sá,“ segir Ingólfur „að aukinn mannskap þarf ekki bara í nýsmíði heldur hefur safnast upp mikil viðhaldsþörf í innviðakerfinu á síðustu árum þar sem því hefur alls ekki verið sinnt nægjanlega. Þetta á til dæmis við um vegakerfið. Þar mun spurnin eftir iðnaðarmönnum verða mikil á næstu árum ef stjórnvöld ætla að bæta ástand innviðanna,“ segir Ingólfur Bender.