Alls greindust sjö einstaklingar með COVID-19 í gær en af þeim sem greindust voru fjórir utan sóttkvíar við greiningu. Allir sem greindust voru bólusettir samkvæmt tilkynningu almannavarna.

Eftir smitrakningu gærdagsins eru núna hátt í 400 manns í sóttkví og má búast við að fleiri fari í sóttkví eftir daginn í dag. Upplýsingasíða covid.is er aðeins uppfærð á fimmtudögum og því ekki ljóst hversu margir eru í einangrun með virkt smit að svo stöddu.

Frá því á sunnudag hafa 24 einstaklingar greinst með veiruna innanlands, þar af voru sextán utan sóttkvíar við greiningu. Langflestir þeirra sem hafa greinst í vikunni eru fullbólusettir og meginþorri smita er að Delta-afbrigðinu svokallaða.

Á landamærunum greindust einnig sjö einstkalingar með veiruna. Stöðugur fjöldi fólks hefur verið að greinast á landamærunum síðastliðnar vikur en frá því á sunnudag hafa tólf smit greinst á landamærunum. Flest innanlandssmit má rekja til landamæranna.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í gær að mögulega þurfi að grípa til aðgerða ef staðan versnar en kvaðst ekki vera með tillögur á teikniborðinu þá. Það gæti þó breyst með skömmum fyrirvara.

Fréttin hefur verið uppfærð.