Lögregla leitar enn mannsins sem reyndi að taka sjö ára stúlku með sér á brott af leikvelli í Grafarvoginum í gærkvöldi, nánar tiltekið klukkan tuttugu mínútur yfir átta um kvöldið.

Faðir stúlkunnar, Ragnar Örn Ottósson setti færslu á Facebook í dag um atvikið. Leikvöllurinn er í botngötu Funafoldar og samkvæmt lýsingu Ragnars gekk maðurinn að henni og spurði hvort hún vildi sjá hundana hans. Þegar hún neitaði tók hann hana upp og hélt henni að sér og ætlaði að ganga með hana á brott.

Stúlkan sýndi gríðarlegt hugrekki og útsjónarsemi, hún fór að öskra og gráta og sparkaði í klofið á manninum svo hann firrtist við, sleppti henni og hljóp á brott.

Ragnar Örn sagði í samtali við Fréttablaðið að góðir félagar í hverfinu gengju nú í hús til að athuga hvort íbúar í Foldahverfi sem eru með myndavélar eða dyrasímakerfi, hafi náð manninum á ferli á upptöku. „Við munum ekki gefast upp fyrr en þessi maður finnst“, segir Ragnar og bendir á að engar eftirlitsmyndavélar séu við leikvelli og telur að þetta mál gæti vakið athygli á því.

Greinargóð lýsing

Ragnar Örn gefur upp símanúmer í færslunni sem hann gefur fjölmiðlum leyfi til að birta og biður hann alla sem hafa mögulega upplýsingar að hafa samband við lögreglu eða sig.

Engin vitni voru að þessu en lýsing stúlkunar á manninum er greinargóð. Hún sagði hann vera íslenskan mann, dökkhærðan með brún augu, á milli 1.70 og 1.80 á hæð, klæddan í gráar íþróttabuxur og gráa peysu. Þá sagði hún hann svolítið freknóttan.