Slökkt var á öndunar­vél sjö ára drengs í Taí­van sem fór í dá eftir að honum var kastað 27 sinnum á gólfið á júdó­æfingu í apríl. Bæði þjálfari og bekkjar­fé­lagar drengsins höfðu æft júdó­köst á honum með þeim verkum að það blæddi inn á heila drengsins og hann fór í dá.

For­eldrar drengsins tóku þá á­kvörðun að slökkva á öndunar­vélinni eftir tæp­lega 70 daga sjúkra­hús­legu. BBC greinir frá.

„Ég man enn þá eftir morgninum þegar ég fór með hann í skólann. Hann sneri sér við og sagði ‚Bless mamma‘. Um kvöldið var hann orðinn svona,“ sagði móðir drengsins í við­tali.

Þjálfarinn, sem er á sjö­tugs­aldri, hefur verið kærður fyrir al­var­lega líkams­á­rás og fyrir það að hafa not­fært sér ó­lög­ráða ein­stak­ling til að fremja glæp. Honum var sleppt úr varð­haldi gegn tryggingu fyrr í þessum mánuði. Vegna dauða drengsins mun kæru hans þó verða breytt yfir í mann­drápskæru og gæti hann því staðið frammi fyrir lífs­tíðar­fangelsi. Hann var ekki með réttindi fyrir júdó­kennslu þegar at­vikið átti sér stað.

Frændi drengsins fylgdi honum á júdó­æfinguna og tók að sögn upp mynd­band til að sýna móður hans að júdó væri ef til vill ekki rétta í­þróttin fyrir drenginn. Á mynd­bandinu sést hvar honum er kastað nokkrum sinnum í gólfið af eldri bekkjar­fé­laga.

Drengurinn öskrar af sárs­auka en þjálfarinn skipar honum að standa aftur upp og segir eldri drengnum að halda á­fram að kasta honum áður en hann grípur drenginn sjálfur og kastar honum í gólfið. Drengurinn missti að lokum með­vitund en fjöl­skyldan segir að þjálfarinn hafi á­sakað hann um að þykjast.

Ýmsir hafa vel því fyrir sér af hverju frændi drengsins gerði ekki neitt til að stöðva þjálfarann en sér­fræðingar benda á að í Taí­van er djúp­stæð virðing borin fyrir kennurum, sem þýðir að fólk veigri sér oft við að vefengja yfir­ráð þeirra burt séð frá að­stæðum.

Móðir drengsins tjáði blaða­mönnum að frændinn væri miður sín vegna málsins.