Sjö ára barn er meðal þeirra sem slösuðust alvarlega í árekstri tveggja bifreiða á Hnífsdalsvegi, milli Hnífsdals og Ísafjarðar, laust fyrir klukkan átta í gærkvöldi. Barnið, ásamt tveimur öðrum, var flutt með sjúkraflugi til Reykjavíkur til aðhlynningar. Mbl.is greinir frá.
Þetta staðfestir Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum.
Á áttunda tug manna komu að aðgerðunum í heildina í gær, þar af fimmtíu á vettvangi og við vettvang. Hlynur segist þó ekki geta tjáð sig nánar um tildrög slyssins að svo stöddu. Málið sé í rannsókn.
„Það er snjólaust hérna, en í gær og í dag er ísing á vegi. Þannig að hann er aðeins hálli. En hvort það sé samverkandi þáttur verður bara að koma í ljós,“ segir Hlynur.
Rýnifundur er á dagskrá klukkan þrjú í dag fyrir alla þá sem komu að aðgerðunum í Hnífsdal.