Tilkynningum til Lyfjastofnunar vegna aukaverkana af völdum bóluefnis hefur fjölgað frá því í desember að sögn Rúnu Hauksdóttur Hvannberg. Í heildina hefur borist 61 tilkynning um aukaverkanir og sjö tilkynningar um andlát.
Einstaklingarnir sem létust voru aldraðir og glímdu við undirliggjandi sjúkdóma. Aðspurð sagði Rúna að það væri ekki í verkahring Lyfjastofnunar að ákveða hvaða hópar hlytu bólusetningu eða hvort einhverjir ættu að heyra undantekningum.
Stofnunin gefi ekki upp nein sérstök tímamörk á því hversu langur tími þarf að líða frá bólusetningu. „Það er töluverður mismunur á tímalengd milli bólusetningu og andláts,“ segir Rúna.
Enn þykir ekki sannað að einstaklingarnir sem um ræðir hafi veikst eða látist í tengslum við bólusetninguna. Landlæknir, sóttvarnalæknir og forstjóri Lyfjastofnunar ákváðu þó í byrjun árs að rannsaka fimm tilvik, þar af fjögur andlát í tengslum við bólusetningar.
„Okkur fannst mikilvægt að rannsaka þetta, þar sem þetta er einnig að eiga sér stað í löndunum í kringum okkur.“ Rúna segir niðurstöður rannsóknarinnar vera væntanlegar á næstu dögum.
Tilgangur rannsóknarinnar er að meta hvort líklegt sé að alvarlegu atvikin sem um ræðir tengist bólusetningunni eða hvort þau tengist undirliggjandi sjúkdómum. Embætti landlæknis segir ekkert benda til þess að beint orsakasamhengi sé þarna á milli eins og sakir standa.